Fimmtíu manns eru nú með staðfest virkt smit af kórónuveirunni sem veldur COVID-19. 287 eru komnir í sóttkví. Slíkur fjöldi hefur ekki verið með COVID síðan í byrjun maí.
Í gærmorgun voru 39 manns í einangrun og hafði þá staðfestum smitum fjölgað um 10 á milli daga Þá voru 215 í sóttkví en í dag er fjöldinn orðinn 287. Einn sjúklingur með COVID-19 liggur á Landspítalanum.
Öll smitin sem greindust í gær eru innanlandssmit sem þýðir að hinir sýktu smituðust hér á landi. 21 nýtt tilfelli hefur bæst við á tveimur sólarhringum.
Yfir 70 þúsund sýni hafa verið tekin innanlands frá því að faraldurinn kom upp í lok febrúar. Um 62 þúsund sýni hafa verið tekin á landamærunum frá því skimun þar hófst 15. júní. Yfir 23 þúsund hafa farið í sóttkví á einhverjum tímapunkti síðustu mánuði.
Íslensk erfðagreining greindi 1.350 sýni í gær og af þeim reyndist eitt jákvætt fyrir veirunni. 265 sýni voru tekin til greiningar á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Tíu sýnanna reyndust jákvæð.
Á Íslandi hafa nú alls 1.885 greinst með COVID-19.
Fjöldasamkomur fleiri en 100 bannaðar
Á hádegi í dag, föstudag, taka gildi hertar takmarkanir á samkomum vegna farsóttarinnar. Meginbreytingin felst í því að fjöldatakmörkun á samkomum lækkar úr 500 í 100 og 2 metra reglan tekur aftur gildi á milli einstaklinga sem ekki deila heimili.
Í auglýsingu heilbrigðisráðherra um takmarkanirnar kemur fram að í þeim felist að fjöldasamkomur þar sem fleiri en 100 einstaklingar koma saman eru óheimilar, hvort sem er í opinberum rýmum eða einkarýmum. Er þá m.a. vísað til:
a. Ráðstefna, málþinga, útifunda o.þ.h.
b. Kennslu, fyrirlestra og prófahalds, sbr. þó 1. mgr. 8. gr.
c. Skemmtana, svo sem tónleika, leiksýninga, bíósýninga, íþróttaviðburða og einkasamkvæma.
d. Kirkjuathafna hvers konar, svo sem vegna útfara, giftinga og ferminga, og annarra trúarsamkoma.
e. Annarra sambærilegra viðburða með fleiri en 100 einstaklingum.
Enn fremur skal tryggt á öllum vinnustöðum og í allri starfsemi að ekki séu á sama tíma fleiri en 100 einstaklingar inni í sama rými.
Í starfsemi sem eðlis síns vegna krefst meiri nálægðar en tveggja metra, svo sem í heilbrigðisþjónustu, á hárgreiðslustofum, nuddstofum og í almenningssamgöngum, skal nota andlitsgrímu sem hylur nef og munn þar sem fjarlægð milli einstaklinga verður ekki viðkomið.
Takmarkanirnar verða endurskoðaðar daglega en þær gilda annars til 13. ágúst.