Samkvæmt upplýsingum af covid.is eru nú 58 einstaklingar í einangrun vegna kórónuveirunnar. Af þeim 489 sýnum sem greind voru á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í gær reyndust 7 þeirra vera jákvæð. Ekkert þeirra 835 sýna sem greind voru af Íslenskri erfðagreiningu reyndist jákvætt. Einn einstaklingur bíður eftir mótefnamælingu eftir skimun á landamærum í gær. Í sóttkví eru 454 einstaklingar en til samanburðar voru 287 í sóttkví í gær. Einn sjúklingur með COVID-19 liggur á Landspítalanum.
Boðað hefur verið til upplýsingafundar Almannavarna klukkan 14 í dag þar sem þau Alma D. Möller, landlæknir, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, fara yfir stöðu mála varðandi framgang kórónuveirufaraldursins hér á landi.
Tvö smituð á Vestfjörðum
Á Facebooksíðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða er greint frá því að tvö eru smituð af COVID-19 á Vestfjörðum. Annað er erlendur ríkisborgari með ísfirskt lögheimili sem var að koma heim frá Evrópu. Þegar hann var kominn heim hafði hann fengið bæði einkenni og jákvæða niðurstöðu úr sýnatöku sem tekin var við landamærin. Hinn einstaklingurinn er ferðamaður á húsbíl sem greindist smitaður við komuna til landsins. Ferðamaðurinn bíður nú í farsóttahúsi eftir niðurstöðum úr mótefnamælingu.
„Þessi smit undirstrika mikilvægi þess að bæði Íslendingar og erlendir ríkisborgarar sýni varkárni, líka við hér vestur á fjörðum sem höfum kannski vonað að við gætum sloppið vel þetta skiptið,“ er haft eftir Súsönnu Björgu Ástvaldsdóttur, umdæmislækni sóttvarna á Vestfjörðum, í Facebookfærslu á síðu Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.