13 ný innanlandssmit greindust í gær. Alls var 271 sýni greint á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og voru 13 þeirra jákvæð. Af þeim 555 sýnum sem Íslensk erfðagreining greindi í gær reyndist ekkert jákvætt en Íslensk erfðagreining hefur verið að mæla fyrir smiti í samfélaginu frá 29. júlí.
2.362 sýni voru tekin á landamærum í gær. Eitt þeirra reyndist jákvætt en beðið er eftir mótefnamælingu. Frá 15. júní þegar sýnataka hófst hafa rúmlega 66 þúsund sýni verið tekin.
Alls eru nú 72 í einangrun samkvæmt upplýsingum á covid.is. Í sóttkví eru nú 569 einstaklingar en þeir voru 454 í gær. Einn einstaklingur liggur á legudeild Landspítalans vegna COVID-19.
Líkt og í gær munu þau Alma D. Möller, landlæknir, Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, og Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, fara yfir stöðu mála á upplýsingafundi almannavarna klukkan 14 í dag.