Alls eru 190 þúsund símtæki með smitrakningarappið Rakning C-19 virkt þessa stundina. Frá þessu greindi Alma D. Möller landlæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. „Við sjáum að það hafa rúm 63 þúsund hlaðið niður appinu síðan í júní. Það getum við sett í samhengi við það að 71 þúsund manns hafa verið skimaðir við komuna til landsins og hingað hafa komið um 100 þúsund farþegar,“ bætti hún við.
Alls hafa 32 þúsund fjarlægt appið en samkvæmt Ölmu er líklegast að þar sé um að ræða ferðamenn sem farnir eru af landi brott. „Það kann að vera erfitt að lesa í þessar tölur en við höldum þó að mikill meirihluta ferðamanna bregðist við þessari áskorun um að hlaða niður appinu og er það vel.“
Íslendingar haldi áfram að nota appið
Hún biðlaði til Íslendinga um að halda áfram að nota appið. Það hjálpar til við að greina ferðir og rekja saman ferðir þegar upp kemur smit. „Það er mikilvægur hlekkur í okkar varnarkeðju,“ sagði Alma.
Að vísu hefur orðið vart við það að gögn vanti í tækin en það gæti verið vegna stillingaratriða að mati Ölmu. Hún sagði leiðbeiningar vera væntanlegar á covid.is
Von er á Bluetooth virkni í appið
Alma sagði að um miðjan ágúst verði tilbúin Bluetooth virkni sem hægt sé að nýta við rakningu. Sú virkni hafi verið í þróun hjá Apple og Google og sé þeirra framlag í baráttunni við COVID-19.
„Þessi virkni, hún verður sjálfkrafa í stýrikerfi símanna en maður mun þurfa að heimila að þessi virkni sé til staðar. Þá er þetta þannig þegar símtæki eru nálægt hvert öðru þá skiptast þau á einhverjum leynikóðum sem að bara eru vistaðir í símunum og síðan þarf þá aftur að heimila aðgang að þeim ef að kemur upp smit. Þá er hægt að senda skilaboð í viðkomandi símtæki og þau verða þá á þann hátt að við biðjum um að það verði haft samband við rakningarteymið,“ sagði Alma.
Hún sagði að með tilkomu Bluetooth tækninnar verði rakning auðveldari og að þau vonist til þess að tæknin komist í notkun. „Við höfum alltaf sagt að þegar komið er upp smit, þá er smitrakning eitt það mikilvægasta sem við gerum. En betra er samt að fækka smitum sem mest og það gerum við með því að hjálpast að við þessar einstaklingsbundnu smitvarnir og með því að virða og fylgja reglum og leiðbeiningum.“