„Það er eðlilegt að verða áhyggjufullur og finna til kvíða við þessar aðstæður sem við búum við í dag. Þetta eru í raun eðlilegar tilfinningar við óeðlilegar aðstæður og þetta eru áhyggjur, við höfum áhyggjur af eigin heilsu og við höfum áhyggjur af heilsu okkar nánustu,“ sagði Agnes Agnarsdóttir, fagstjóri sálfræðiþjónustu á heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, á upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag.
Hún sagði góðar upplýsingar um hvernig hægt sé að takast á við slíkar tilfinningar vera að finna á heilsuvera.is og covid.is. Verði áhyggjur eða kvíði hamlandi þá ætti fólk að leita aðstoðar hjá heilsugæslunni. „Hjá heilsugæslunni starfar til dæmis öflugur hópur sálfræðinga, um landið og þessi hópur sálfræðinga veitir bæði ráðgjöf og meðferð við kvíða, þunglyndi og áföllum,“ sagði Agnes.
Þá sagði Agnes samskipti við aðra vera mikilvæg fyrir góða heilsu og að tæknin gerði okkur kleift að eiga samskipti við aðra. Þá minntist hún sérstaklega á leiðbeiningar á covid.is þar sem farið er yfir hvernig best sé að bera sig að þegar talað er við börn um COVID-19.
Kúrfan svipuð og síðast
Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, sagði kúrfuna í þessari bylgja vera svipaða kúrfunni í síðustu bylgju. Því sé mikilvægt að fólk fylgi reglum og fyrirmælum til þess að hægt sé að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu. Hann sagði það ekki tímabært að herða á aðgerðum en að yfirvöld væru í startholunum með það að herða aðgerðir, eða slaka á ef svo ber undir.
Af þeim níu sem greindust í gær var einn einstaklingur í sóttkví sem Þórólfur sagði sýna hversu útbreidd veiran kunni að vera. Sú breyting hefur orðið á að enginn liggur nú á legudeild Landspítala og sagði Þórólfur það vera ánægjulegt.
Mikið álag á heilsugæslu
Alma D. Möller, landlæknir, sagði mikið álag vera á heilsugæsluna vegna símtala, meðal annars vegna þess að einkennalaust fólk er að falast eftir sýnatökum. Hún sagði sýnatökur einungis vera í boði fyrir fólk með einkenni.
„Sýnataka hjá þeim sem eru einkennalausir, það er jú skimun og einungis í boði hjá Íslenskri erfðagreiningu. Sem stendur er það einungis í tengslum við þekkt smit og fólk fær um það boð,“ sagði Alma.
Þurfum ekki að vera alltaf sammála
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn, gerði umræðu síðustu daga að umfjöllunarefni sínu. Hann sagði að það þyrftu ekki allir að vera sammála alltaf um hvað ætti að gera. Við þyrftum að geta rætt hlutina, hugsað gagnrýnið og sett fram okkar sjónarmið án þess að vera úthrópuð fyrir það. Við séum öll að stefna í sömu átt..
“Líkt og áður er þetta algjörlega bara í okkar höndum. Eina leiðin til að takast á við þetta er að gera þetta saman. Við þurfum ekkert öll að vera alveg 100 prósent sammála en lykilatriðin held ég að við séum öll sammála um og þannig vinnum við þetta áfram og tökumst á við þetta núna,“ sagði Víðir að lokum.