Fjörutíu og fjögur fyrirtæki hafa endurgreitt Vinnumálastofnun samtals 210 milljónir króna, sem starfsmenn þessara sömu fyrirtækja fengu greiddar úr opinberum sjóðum eftir að fyrirtækin skertu starfshlutfall þeirra. Þetta segir Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, í svari við fyrirspurn Kjarnans.
Ekki fæst uppgefið hjá Vinnumálastofnun að svo stöddu hvaða fyrirtæki það eru sem hafa endurgreitt bæturnar sem starfsmenn þeirra fengu.
Fjölmörg fyrirtæki gáfu það þó sjálf út opinberlega að bæturnar yrðu endurgreiddar, eftir að gagnrýni kom fram í opinberri umræðu og frá stjórnmálamönnum í lok apríl á það að stöndug fyrirtæki með styrkan efnahag væru að nýta hlutabótaleiðina, þeirra á meðal fyrirtæki sem væru búin eða hefðu í hyggju að greiða hluthöfum sínum arð á árinu.
Í lok maí birti Ríkisendurskoðun skýrslu um hlutabótaleiðina og framkvæmd hennar og kom þar sömuleiðis fram sú túlkun að ekki yrði séð af lögunum um leiðina né lögskýringargögnum að það hafi verið ætlunin að stöndug fyrirtæki myndu nýta sér leiðina.
Pólitíkin sem skipti um skoðun
Eftir að snörp gagnrýni kom fram frá stjórnvöldum gagnrýndu sumir í atvinnulífinu stjórnvöld til baka og sögðu að þeim hefði snúist hugur frá fyrri yfirlýsingum um það hvert markmið hlutabótaleiðarinnar ætti að vera.
Fyrri yfirlýsingar hefðu verið villandi, sögðu sumir, en þegar hlutabótaleiðin var kynnt af hálfu stjórnvalda voru ekki neinar kvaðir um að þau fyrirtæki sem hana nýttu mætti ekki greiða sér sér arð eða kaupa eigin hlutabréf.
Eggert Þór Kristófersson, forstjóri almenningshlutafélagsins Festi hf., sem rekur m.a. Krónuna, Elko og N1, var einn þeirra sem virtist ósáttur við nýjan tón stjórnvalda. Hann sagði við mbl.is 8. maí að fyrirtækið væri með ákvörðun sinni um að hætta að nýta hlutabótaleiðina og endurgreiða ríkinu að bregðast við gagnrýni „frá pólitíkinni sem hafi skipt um skoðun“.
Festi greindi frá því í hálfsársuppgjöri fyrirtækisins sem kom út á fimmtudag að hátt á sjöunda hundrað milljóna króna yrðu greiddar í arð til hluthafa félagsins í septembermánuði.
„Nokkuð viss“ um að öll hafi endurgreitt án þess að fá kröfu
Bjarni Benediktsson sagði aðspurður í samtali við RÚV þann 8. maí að ef í ljós kæmi að fyrirtæki hefðu nýtt sér hlutabótaleiðina án fullnægjandi skýringa væri ekki útilokað að farið yrði fram á að fyrirtækin endurgreiddu ríkinu.
Unnur Sverrisdóttir hjá Vinnumálastofnun segir í svari við spurningu Kjarnans um þetta að hún sé „nokkuð viss“ um að öll fyrirtækin 44 sem hafa endurgreitt hlutabætur hafi gert það án þess að vera krafin sérstaklega um það.