Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, segir að nýleg gagnrýni hagfræðinganna Gylfa Zoega og Þórólfs Matthíassonar, sem settar voru fram í greinum í Kjarnanum og Vísbendingu, eigi ekki við rök að styðjast.
Í greinum sínum færðu hagfræðingarnir tveir, í sitthvoru lagi, fram rök fyrir því að það hefðu verið mistök að opna landið fyrir ferðamönnum um miðjan júní og að það muni hafa neikvæðari efnahagslegar afleiðingar en ef það hefði ekki verið gert. „Með ákvörðunum sínum um opnun landsins hafa stjórnvöld stefnt mikilvægum almannagæðum í hættu sem eru þau gæði að geta hitt annað fólk, lært með öðru fólki, unnið með öðru fólki og verslað við annað fólk. Og þar með er efnahag landsins einnig stefnt í hættu,“ skrifaði Gylfi.
Þórólfur skrifaði meðal annars að rýmkandi ákvarðanir í sóttvörnum og um opnun landamæra virðast hafa verið teknar á grundvelli þrýstings hagsmunagæslumanna og þröngra hagsmuna umbjóðenda þeirra, ekki á grundvelli hagræns uppgjörs.
Eigin hegðun landsmanna ráði úrslitum
Þórdís skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hún segir, undir millifyrirsögninni „hagfræðingar gerast sérfræðingar í sóttvörnum“, að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi við upphaf faraldursins sagt að erlendum ferðamönnum fylgdi fremur lítil áhætta. Það hafi enda ekki greinst nema 32 virk smit á landamærum í meira en 75 þúsund teknum sýnum. Inni í þeirri tölu séu Íslendingar sem komi erlendis frá. Það sé skoðun þríeykisins svokallaða að eigin hegðun landsmanna ráði úrslitum í baráttunni við faraldurinn.
Þekkir ekki marga sem fara hringinn í október
Það komi því henni á óvart að Gylfi skuli í grein sinni í Vísbendingu leggja áherslu á að Ísland þurfi ekki erlenda ferðamenn því að staða efnahagsmála sé framar vonum og þannig hafi t.d. merkilega margir keypt gistingu á landsbyggðinni í sumar. „Þetta slær mig svolítið eins og að fagna góðu stuði í gleðskap á miðnætti án þess að hugsa út í hausverkinn að morgni. Ég þekki ekki marga sem ætla að fara hringinn í október. „Stjórnmálamaður gerist hagfræðingur“ gæti nú einhver sagt. Já, ég leyfi mér að hafa áhyggjur af stöðu ríkissjóðs, efnahagslífsins, fyrirtækja og einstaklinga. Ég leyfi mér líka að benda á að þótt það sé rétt hjá Gylfa að atvinnuleysisbætur örvi eftirspurn þá er það ekki sjálfbært. Við þurfum núna á öllu okkar að halda.“