Albert Kawana sjávarútvegsráðherra Namibíu hefur sent aðilum í sjávarútvegi þar í landi bréf og beðið þá um að búa sig undir að aflaheimildir fyrir þrjár fisktegundir verði boðnar upp til hæstbjóðenda á markaði. Sjávarútvegsráðherrann segir, samkvæmt fréttum bæði Namibian og Reuters, að uppboðsleiðin verði farin til þess að safna erlendum gjaldeyri svo mögulegt sé að kaupa lyf og sjúkragögn til þess að fást við kórónuveirufaraldurinn.
Fyrr í sumar bárust fregnir frá Namibíu þess efnis að stjórnvöld stefndu að uppboði aflaheimilda, meðal annars hrossamakrílskvóta, sem áður var á hendi dótturfélags Samherja í landinu. Sá kvóti fer nú á uppboð, rétt eins og aflaheimildir í lýsingi og skötusel.
Þetta er í fyrsta sinn sem namibíska ríkið býður upp kvóta á markaði, en árum saman hefur stórum hluta aflaheimilda verið úthlutað til ríkisfyrirtækisins Fishcor, sem sá svo um að úthluta kvótanum áfram.
Samkvæmt frétt Namibían munu 60 prósent af hrossamakríls- og lýsingskvótanum verða seld til hæstbjóðanda, en 40 prósent munu fara til fyrirtækja sem starfa í Namibíu á „mun lægri verðum“ til þess að tryggja atvinnustig í landinu, samkvæmt sjávarútvegsráðherranum. Allur skötuselskvótinn fer hins vegar á uppboð.
Tortryggnisraddir heyrast
Einhverrar tortryggni virðist gæta í Namibíu vegna þessara áforma yfirvalda og hefur Namibian eftir ónafngreindum aðila sem starfar í namibískum sjávarútvegi að með þessu sé verið að opna á það að erlend skip geti fengið kvóta á kostnað heimamanna sem sitji verkefnalausir á meðan. Annar segir að hann bíði bara eftir því að stjórnmálamenn fari að maka krókinn á kvótaútboðinu með einhverjum hætti.
Kawana sjávarútvegsráðherra vísar þessu á bug og segir að gætt verði að gagnsæi við uppboðið og tekjur af kvótanum verði birtar opinberlega. Einnig segir hann að krafa verði gerð um að skip sem skrásett eru í Namibíu veiði kvótann.
Namibíska ríkið er nú í verulegum efnahagskröggum og þarf nauðsynlega á gjaldeyri að halda til þess að geta orðið sér úti um nauðsynjar til að fást við COVID-19 faraldurinn í landinu, en þar hafa um 3.000 sýkst og 19 látist til þessa, samkvæmt tölum sem birtar voru á sunnudag.
Í júlímánuði leitaði ríkið eftir neyðarláni frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum að andvirði tæplega 35 milljarða íslenskra króna til þess að fást við faraldurinn og afleiðingar hans.