Þó að almennt megi fullyrða að skimun á landamærum hafi reynst árangursrík til að koma í veg fyrir að smit berist hingað hafa tvö afbrigði veirunnar náð að komast fram hjá skimuninni og valda hér faraldri með alvarlegum heilsufarslegum afleiðingum, skrifar Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, í minnisblaði sínu til heilbrigðisráðherra um framhald aðgerða á landamærum vegna faraldurs COVID-19. Í því fer Þórólfur yfir níu aðgerðir sem mest hafa verið til umræðu og leggur sitt mat á hverja og eina þeirra.
1. Aðgangur ferðamanna til landsins verði óheftur.
Mat Þórólfs: „Ég mæli því alls ekki með þessum kosti á þessari stundu sérstaklega í ljósi þess að faraldurinn er í miklum vexti víða í heiminum. Miklar líkur eru á að þessi ráðstöfun leiði til útbreidds faraldurs sem erfitt yrði að ráða við og myndi líklega valda miklu álagi á heilbrigðiskerfið með alvarlegum afleiðingum.“
2. Beitt verði ítrustu hömlum á komur einstaklinga hingað til lands.
Mat Þórólfs: „Ég tel því að slíkar aðgerðir muni ekki koma að fullu í veg fyrir dreifingu veirunnar hingað og muni ekki koma í veg fyrir dreifingu hennar innanlands.“
3. Öllum einstaklingum sem koma hingað til lands verði gert að fara í 14 daga sóttkví án skimunar.
Mat Þórólfs: „Þessar aðgerðir myndu því minnka verulega líkur á dreifingu veirunnar hingað til lands en ekki koma í veg fyrir slíkt.“
4. Skimun allra á landamærum við komuna hingað til lands.
Mat Þórólfs: „Þessi aðgerð mun því minnka líkur á að smit berist hingað til lands en ekki koma í veg fyrir slíkt.“
5. Skimun allra á landamærum, sóttkví í 4-6 daga og í framhaldi af því sýnataka 2.
Mat Þórólfs: „Þessi aðgerð er að líkindum mjög áhrifarík í því skyni að lágmarka áhættuna á því að veiran berist hingað til lands. Fjöldi ferðamanna hingað til lands myndi takmarkast við skimunargetu.“
6. Skimun allra á landamærum sem koma frá áhættusvæðum en einstaklingum frá lág áhættusvæðum yrði sleppt.
Mat Þórólfs: „Þessi aðferð er vel framkvæmanleg í dag m.t.t. afkastagetu skimunarinnar og minnkar líkur á að veiran komist hingað til lands en kemur ekki í veg fyrir slíkt. Hins vegar takmarkast fjöldi ferðamanna við afkastagetu skimunarinnar.“
7. Skimun allra einstaklinga á landamærum, sóttkví í 5-7 daga fyrir einstaklinga frá áhættusvæðum og síðan sýnataka 2 hjá einstaklingum í sóttkví.
Mat Þórólfs: „Þessi kostur er því álitlegur en fjöldi ferðamanna takmarkast við skimunargetu.“
8. Sóttkví allra í 7 daga sem lýkur með sýnatöku.
Mat Þórólfs: „Þessi kostur er ekki eins álitlegur og ýmsir aðrir kostir og fjöldi ferðamanna takmarkast við skimunargetu.“
9. Skimun einstaklinga frá lág áhættusvæðum en 14 daga sóttkví hjá einstaklingum frá áhættusvæðum.
Mat Þórólfs: „Þessi aðgerð dregur úr líkum á að veiran berist hingað til lands en er ekki eins áhrifarík eins og sumar aðrar aðgerðir sem nefndar hafa verið. Farþegum frá áhættusvæðum myndi líklega fækka en erfitt yrði að flokka farþega eftir svæðum.“
Þórólfur bendir að lokum á að allar takmarkandi aðgerðir á landamærum minnki áhættuna á því að SARS-CoV-2, veiran sem veldur COVID-19, berist hingað til lands en að engin aðgerð komi algerlega í veg fyrir að það geti gerst. Skimun á landamærum getur takmarkað fjölda ferðamanna og getur jafnfram dregið úr líkum á að veiran berist hingað. „Áhrifaríkasta leiðin til að koma í veg fyrir að veiran berist hingað til lands að mínu mati er að skima alla farþega á landamærum, krefja þá um sóttkví í 4-6 daga og skima þá aftur að þeim tíma liðnum.“
Segir Þórólfur að aðrar aðferðir hafi mismunandi kosti og galla en séu ekki jafn áhrifaríkar.
Takmarkanir sem nú eru á landmærum Íslands gilda fram í miðjan september.