Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði það nauðsynlegt að slaka hægt og sígandi á þeim takmörkunum sem nú eru í gangi í samfélaginu. „Það er mikilvægt að við reynum að hafa sem mestan stöðugleika í okkar viðbrögðum og okkar lífi. Í því felst að mínu mati að vera ekki sífellt að herða og slaka á aðgerðum,“ sagði hann í því samhengi.
Þórólfur hóf upplýsingafund almannavarna í dag á að fara yfir tölulegar upplýsingar eins og venja er. Fimm einstaklingar af þeim sex sem greindust í gær eru staðsettir á höfuðborgarsvæðinu en einn einstaklingur í Vestmannaeyjum. Það smit tengist hópsýkingu sem þar kom upp fyrir um viku síðan. Nú er einn einstaklingur inniliggjandi á Landspítala og er hann kominn af gjörgæslu.
„Þetta er meiri heimild en við öll hin höfum“
Víðir Reynisson áréttaði það á upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag að áhorfendur verða ekki heimilaðir á íþróttaleikjum. „Það kemur skýrt fram í minnisblaði sóttvarnarlæknis en það var mistúlkun síðan frá okkur á reglunum sem settar voru en það er skýr vilji sóttvarnalæknis og hann hefur fært rök fyrir því að það verða ekki áhorfendur á íþróttaleikjum til að byrja með,“ sagði Víðir á fundinum.
„Það hefur líka verið rætt um kvaðir á leikmenn og hegðun utan vallar og einhvers konar takmarkanir á slíku og í því sambandi viljum við benda á að það er verið að veita íþróttamönnum heimild sem ekki margir aðrir í samfélaginu hafa til að stunda sína íþrótt. Þetta er meiri heimild en við öll hin höfum og því fylgir auðvitað mikil ábyrgð sem menn þurfa að sýna,“ sagði Víðir að auki.
Þá sagði hann að sóttvarnayfirvöld hefðu verið í miklum samskiptum við sviðslistastofnanir og aðra sem skipuleggja menningarviðburði. Verið sé að leita leiða til að samþætta sóttvarnasjónarmið við þann möguleika að hefja æfingar í leikhúsum og síðar þann möguleika að starfsemi þeirra geti hafist.
Grímur engin töfralausn
Alma Möller talaði um hvaða reglur og tilmæli eru í gildi vegna grímunotkunar og benti hún sérstaklega á leiðbeiningar um notkun gríma og umfjöllun um mismunandi tegundir þeirra sem finna má á vef landlæknis, landlaeknir.is. Hún sagði grímur vissulega geta gert gagn, þær grípi dropa sem koma úr öndurvegi og munnvatni þess sem ber grímuna þannig að droparnir dreifast síður til annarra, auk þess sem þær minnka líkur á því að sá sem er með grímuna fái veiruna í sig. Þær þurfi samt sem áður ekki alltaf að vera uppi við: „Við viljum leggja áherslu á að það er ekki mælt með almennri notkun grímu á almannafæri og þegar hægt er að tryggja tveggja metra regluna að þá þarf ekki að nota grímu,“ sagði Alma.
„Ég vil hvetja almenning til að kynna sér hvetja sér þessar leiðbeiningar til að vanda sig við notkun og við leggjum áherslu á að grímur eru ekki töfralausn og leysa okkur alls ekki undan þessum einstaklingsbundnu smitvörnum,“ sagði Alma að lokum.