Sýkla- og veirufræðideildin og íslensk erfðagreining hafa ákveðið að snúa bökum saman til þess að auka afkastagetu við greiningu sýna enn frekar. Þetta sagði Karl G. Kristinsson, yfirlæknir á sýkla- og veirufræðideild Landspítala á upplýsingafundi almannavarna fyrr í dag. Hann sagði mikið álag hafa verið á tækjum deildarinnar en afköst hafi verið miðuð við 2.000 sýni á dag. Meðalfjöldi sýna síðustu viku hefur verið yfir 2.500 sýnum á dag og síðustu tvo daga hefur fjöldinn farið yfir 3.000. Tækjabúnaður Íslenskrar erfðagreiningar er talinn geta afkastað 5.000 sýnum á dag að sögn Karls.
Hann sagði að sýkla- og veirufræðideildin hafi verið í startholunum frá upphafi faraldursins. Aðferð til að greina SARS kórónuveiruna hafi verið tilbúin í lok janúar og fjölmörg próf hafi verið gerð áður en fyrsta tilfellið var greint 28. febrúar.
Tækjamálin mættu vera í betra lagi
„Vegna umræðu undanfarið um tækjamál deildarinnar þá má segja að tækjamálin hefðu mátt vera í betra lagi. En Landspítalanum er skammtað tækjakaupafé og hjá okkur hefur það að mestu þurft að fara í að endurnýja nauðsynleg tæki. Sjálfvirk tæki til að einangra erfðaefni úr sýnum er takmarkandi þáttur í afkastagetu,“ sagði Karl á fundinum.
Hann sagði sjálfvirk tæki þurfa að fara í útboð og að útboðsgögn hafi næstum verið tilbúin þegar faraldurinn skall á. Að hans sögn er útboðsferlið tímafrekt og ljóst var þegar sýnum fór hratt vaxandi í upphafi faraldurs að afkastageta tækjanna gæti orðið takmarkandi þáttur. „Þegar innkaup eru algjörlega nauðsynleg vegna aðkallandi neyðarástands sem stafar af ófyrirsjáanlegum atburðum þarf ekki að fara í útboð og þá fórum við strax í að panta nauðsynleg tæki,“ sagði Karl.
Afkastamesta tækið kemur í nóvember
Nú þegar hefur afkastamikið einangrunartæki borist deildinni og von sé á öðru í lok vikunnar. „Afkastamesta tækið kemur því miður ekki fyrr en í nóvember en er svo gríðarleg umframeftirspurn eftir svona tækjum í heiminum í dag. En það er ekki nóg að hafa tæki, það þarf líka starfsfólk, sýnatökusett og hvarfefni. Þó oft hafi staðið tæpt með sýnatökusett og hvarfefni þá hefur gengið að afla þeirra með hjálp góðra aðila,“ sagði Karl og benti á að 20 nýir starfsmenn hefðu verið ráðnir til að sinna greiningum.
Hluti af starfsemi sýkla- og veirufræðideildarinnar mun flytjast í aðstöðu Íslenskrar erfðagreiningar. Karl sagði á fundinum að undirbúningur vegna flutningsins stæði nú yfir og hann gerði ráð fyrir að flutningurinn gæti orðið í byrjun næstu viku.