Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir RÚV hafa unnið náið saman með Seðlabankanum til að hefja rannsókn á gjaldeyrisviðskiptum sjávarútvegsfyrirtækisins. Þetta kom fram í viðtali Þorsteins við Kristján Kristjánsson á Sprengisandi á Bylgjunni fyrr í dag.
Í viðtalinu var minnst á myndband sem Samherji gaf út fyrr í vikunni þar sem fyrirtækið sakaði Helga Seljan, fréttamann á RÚV, um að hafa falsað skýrslu frá Verðlagsstofu skiptaverðs sem var notuð sem heimild í Kastljósþætti árið 2012. Fyrirtækið heldur því fram að skýrslan hafi verið ein af grundvallarástæðum þess að Seðlabankamálið svokallaða á sínum tíma.
Verðlagsstofa skiptaverðs hefur staðfest tilvist gagnanna sem voru til umfjöllunar í umræddum Kastljósþætti, en bætir við að ekki hafi verið um sérstaka skýrslu að ræða, heldur trúnaðargögn sem stofnunin vann.
„Eftiráskýringar Seðlabankans“
Samkvæmt Þorsteini Má var „skýrslan“ kveikur þess að Seðlabankamálið svokallaða hafi farið af stað árið 2012, þar sem fyrirtækið lá undir lögreglurannsókn fyrir að hafa brotið þáverandi gjaldeyrislög.
Kristján Kristjánsson sagði þá upphaf málsins hafi byrjað fyrr og vitnaði í greinargerð bankaráðs Seðlabankans, þar sem kom fram að rökstuddur grunur hafi vaknað mánuðum áður en umræddur Kastljósþáttur hafi verið gefinn út.
Þorsteinn kallaði greinargerðina „eftiráskýringar Seðlabankans“ og sagði það vera „augljóst að Seðlabankinn og RÚV hafi saman búið til málið.
Sætir lögreglurannsókn
Samherji sætir nú lögreglurannsókn vegna meints peningaþvættis, mútugreiðslna og skattasniðgöngu tengdri starfsemi fyrirtækisins í Namibíu, en málið var upplýst af Helga Seljan og samstarfsmönnum hans í fréttaþættinum Kveik á RÚV í fyrra. Í kjölfar málsins hefur Samherji breytt skráningu þriggja togara sem notaðir voru í Namibíu. Fréttastofa Kjarnans sendi fyrirtækinu fyrirspurn vegna nýrrar skráningar skipanna þann 25. Júlí, en hefur ekki enn fengið svör frá því.