Þrjú ný kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, öll á sýkla- og veirufræðideild Landspítala, sem tók 383 sýni til greiningar. Alls eru nú 122 manns í einangrun með virkt smit á landinu og 494 einstaklingar eru í sóttkví.
Áfram er einn einstaklingur á sjúkrahúsi, en sá er ekki á gjörgæslu. 14 daga nýgengi innanlandssmita er nú komið í 18,5 á hverja 100.000 íbúa hér á landi. Þetta kemur fram á covid.is.
Tvö af þeim þremur sem greindust með smit innanlands í gær voru í sóttkví, en alls 51 prósent þeirra sem greinst hafa með veiruna hér innanlands frá 15. júní hafa verið í sóttkví þegar sýni úr þeim voru tekin.
Að minnsta kosti tíu virk smit á landamærunum á tveimur dögum
Á sunnudaginn fengu níu manns jákvæða svörun við COVID-19 prófi á landamærunum. Sjö þeirra reyndust vera með virk smit, einn með mótefni fyrir veirunni og enn er beðið eftir mótefnamælingu hjá þeim síðasta.
Í fengu svo sex manns jákvæða svörun við prófi á landamærunum og að minnsta kosti þrjú eru með virk smit, en enn þá er beðið eftir niðurstöðum úr mótefnamælingu hjá þremur. Rúmlega tvö þúsund próf voru tekin á landamærunum hvorn dag.
Á miðnætti taka gildi nýjar og hertari reglur á landamærum Íslands, en þá munu allir sem til landsins koma þurfa að fara í skimun og að því búnu í 4-5 daga sóttkví, áður en þeir fara aftur í sóttkví.
Búast má við að sú ráðstöfun dragi verulega úr ferðavilja bæði til og frá landinu á næstunni.