Fjögur ný kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, öll á sýkla- og veirufræðideild Landspítala sem tók 465 sýni til greiningar. Hlutfall jákvæðra sýna var því innan við eitt prósent. Þrír einstaklingar af þeim fjórum sem greindust í gær voru í sóttkví. Ekkert smit greindist í skimun Íslenskrar erfðagreiningar sem greindi 39 sýni.
Í einangrun eru nú 122 einstaklingar, jafn margir og í gær. Virk smit standa þar af leiðandi í stað. Enn heldur áfram að fækka í sóttkví, nú eru 472 einstaklingar í sóttkví en í gær voru þeir 494. Einn einstaklingur liggur á sjúkrahúsi vegna COVID-19 líkt og í gær, þó ekki á gjörgæslu.
14 daga nýgengi innanlandssmita lækkar á milli daga og er nú komið í 17,2 á hverja 100.000 íbúa hér á landi samkvæmt nýjustu tölum á covid.is. Nýgengi innanlandssmita var í gær 18,5 á hverja 100.000 íbúa.
Breyttar reglur á landamærum hafa tekið gildi
Í landamæraskimun voru tekin 2678 sýni. Tveir einstaklingar greindust með virkt smit en þrír bíða eftir mótefnamælingu. Nýgengi landamærasmita er nú 12,3 en var í gær 11,2.
Frá og með deginum í dag hafa farþegar sem koma til landsins val um að fara í tvær sýnatökur vegna COVID-19 með um fimm daga sóttkví á milli eða sleppa sýnatöku og fara í tveggja vikna sóttkví. „Krafa um skimun og sóttkví nær til þeirra sem hafa dvalið í meira en sólarhring síðastliðna 14 daga í löndum sem skilgreind eru af sóttvarnalækni sem áhættusvæði en sem stendur gildir það um öll lönd. Börn fædd árið 2005 eða síðar eru undanþegin sýnatöku og sóttkví og sama gildir um þá sem íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa staðfest með PCR-prófi að hafi áður fengið COVID-19 sýkingu og lokið einangrun, eða ef COVID-19 sýking hefur verið staðfest með mótefnamælingu,“ segir um nýju reglurnar á vef stjórnarráðsins.