Alls hafa tæplega sjö þúsund landsmenn tekið úr 14,5 milljarða króna af séreignarsparnaði sínum eftir að það var heimilað í fyrsta efnahagspakka ríkisstjórnarinnar til að bregðast við áhrifum kórónuveirunnar, sem fram fór 21. mars síðastliðinn.
Fram til næstu áramóta eru áætlaðar greiðslur upp á 18 milljarða króna. Í heildina eru áætlaðar útgreiðslur sem nema 19,8 milljörðum króna sem dreifast fram í mars 2022. Í upphafi var reiknað með að umfang þessa úrræðis yrði tíu milljarðar króna á 24 mánaða tímabili og því stefnir í að úttekt á séreignarsparnaði verði tvisvar sinnum það sem búist var við.
Þetta kemur fram í minnisblaði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um yfirlit yfir stöðu stærstu efnahagsaðgerða vegna COVID-19, sem kynnt var í ríkisstjórn 14. ágúst síðastliðinn. Miðað við þetta er meðalgreiðsla á hvern þann sem hefur nýtt sér úrræðið um hálf milljón króna.
Fækkar í hópi þeirra sem nýta úrræðið
Heimildin felur í sér að einstaklingum er gert kleift að ganga á eigin sparnað, en þeir þurfa hins vegar að greiða skatt af honum við útgreiðslu líkt og ef þeir tækju hann út á efri árum. Aðgerðin er því tekjuöflunaraðgerð fyrir ríkissjóð. Margir landsmenn nýta nú þegar séreignarsparnað sinn til að greiða niður húsnæðislán, en ef sú leið er valin nýtur útgreiðslan skattfrelsis.
Opið er fyrir umsóknir út þetta ár þannig að heildarumfang aðgerðarinnar verður ekki ljóst fyrr en að þeim tíma liðnum en hver einstaklingur má taka út allt að 12 milljónum króna. Útgreiðslan dreifist með jöfnum greiðslum á allt að 15 mánaða tímabil að hámarki 800 þúsund á mánuði.
Þjóðin þegar búin að eyða miklu af séreign
Sambærileg aðgerð var sett í gang í kjölfar bankahrunsins. Þá tóku landsmenn um fjórðung af öllum séreignarsparnaði í landinu út úr kerfinu, eða hátt í 100 milljarða króna.
Kjarninn greindi frá því fyrr á þessu ári að um síðustu áramót höfðu landsmenn nýtt 73,5 milljarða króna af séreignarsparnaði sínum til að greina niður húsnæðislán eða sem útgreiðslu fyrir íbúð frá því að úrræðin tóku gildi um mitt ár 2014.