Þann 7. ágúst síðastliðinn höfðu alls 332 umsóknir borist um svokallaða uppsagnarstyrki úr ríkissjóði, en um slíka geta fyrirtæki sem orðið hafa fyrir verulegu tekjufalli sótt um til að standa straum af 85 prósent af kostnaðinum við að segja upp fólki.
Þegar er búið að afgreiða 265 umsóknir vegna 158 rekstraraðila og af þeim umsóknum sem afgreiddar hafa verið nemur greiddur stuðningur um 3,7 milljörðum króna vegna launa og 160 milljónir króna vegna orlofs.
Þegar frumvarp um uppsagnarstyrki var lagt fram um miðjan maí var gert ráð fyrir því að bein útgjöld ríkissjóðs vegna úrræðisins yrðu 27 milljarðar króna. Enn sem komið hefur því um 14 prósent af áætluðum kostnaði vegna uppsagnarstyrkja fallið til.
Umsóknir færri en gert var ráð fyrir
Í minnisblaði Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem inniheldur yfirlit yfir stöðu stærstu efnahagsaðgerða stjórnvalda vegna COVID-19, og var lagt fyrir ríkisstjórn síðastliðinn föstudag, segir að umsóknir séu færri en gert hafði verið ráð fyrir á tímabilinu. Umsóknarfrestur vegna maí, júní og júlí sé þó ekki liðinn og gæti fjöldi umsókna því tekið breytingum fram til 20. ágúst, í dag, en það er síðasti umsóknardagur vegna þessara mánaða. Upplýsingar um hverjir hafa nýtt sér úrræðið og hversu mikinn stuðning þessir aðilar hafa fengið, verða birtar á vef Skattsins eftir 20. ágúst.
Átti að kosta 27 milljarða
Þann 28. apríl var tilkynnt um að ríkisstjórnin ætlaði að veita ákveðnum fyrirtækjum, sem hefðu orðið fyrir umfangsmiklu tekjutapi, eða að minnsta kosti 75 prósent, styrki til að eyða ráðningarsamböndum þeirra við starfsfólk sitt.
Frumvarp var svo lagt fram um miðjan maí mánuð og kostnaðarmat kynnt samhliða. Það gerði ráð fyrir því að ríkissjóður greiði fyrirtækjum sem uppfylla sett skilyrði alls 27 milljarða króna í styrki í ár til að hjálpa þeim að segja upp fólki.
Yfirlýst markmið var að draga úr fjöldagjaldþrotum og tryggja réttindi launafólks. Hliðaráhrif eru að eign hluthafa er varin.
Icelandair áætlar að sækja 3,3 milljarða
Ljóst er að það fyrirtæki sem hefur helst notið góðs af úrræðinu er Icelandair Group. Í hálfsársuppgjöri þess kom fram að það búist við að sækja að minnsta kosti 24 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 3,3 milljarða íslenskra króna, í styrki til stjórnvalda vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti starfsmanna.
Þar segir, á blaðsíðu 24, að félög í eigu Icelandair Group vinni nú að því að sækja um styrkina sem stjórnvöld kynntu, en að ennþá sé óvíst hversu margir starfsmenn muni verða hluti af umsókninni, sem fari meðal annars eftir því hversu marga starfsmenn félagið muni geta endurráðið áður en uppsagnarfrestur þeirra rennur út í sumar og í haust.
Icelandair reiknaði þessi ætluðu áhrif uppsagnarstyrkja inn sem lækkaðan kostnað við starfsmannahald á öðrum ársfjórðungi, og því er bætt við að ekki sé loku fyrir það skotið að félagið sæki um enn hærri uppsagnarstyrki, sem komi þá inn í reikningshald félagsins á þriðja ársfjórðungi.