Rio Tinto á Íslandi hf. hefur sótt um nýtt starfsleyfi fyrir álverið í Straumsvík, en núverandi starfsleyfi þess rennur út 1. nóvember. Þetta kemur fram á vef Umhverfisstofnunar.
Þar segir að jafnframt að heimilt sé að framlengja gildistíma starfsleyfis, en þó að hámarki til eins ár, á meðan að ný umsókn um starfsleyfi er í vinnslu. Núverandi starfsleyfi álversins var gefið út í nóvember árið 2005.
Umhverfisstofnun segist vera að vinna úr tillögunni og tekur fram að tillaga um starfsleyfi verði auglýst opinberlega þegar hún liggur fyrir og þá gefist öllum tækifæri til að koma með athugasemdir áður en ákvörðun um útgáfu leyfisins verður tekin.
Rio Tinto hefur sagt til skoðunar að hætta rekstri álversins á Íslandi vegna ósamkeppnishæfs orkuverðs sem fyrirtækið fái hjá Landsvirkjun og fyrr á árinu bað stórfyrirtækið um að viðræður færu fram um lækkað raforkuverð til álversins, en núgildandi raforkussamningur var gerður árið 2010 og síðast endurskoðaður árið 2014.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, greindi frá því í lok febrúar að Landsvirkjun hefði óskað eftir því við Rio Tinto að trúnaðarákvæðum verði aflétt af rafmagnssamningi fyrirtækjanna þannig að hægt yrði að ræða opinberlega um meginefni hans. Taldi hann þetta æskilegt, í anda gagnsæis og einnig mikilvægt fyrir samfélagið. Það hefur Rio Tinto þó ekki viljað gera.
Eftir því sem liðið hefur á árið hefur aukin harka færst í málflutning fyrirtækisins gagnvart Landsvirkjun. Rio Tinto hefur hreinlega hótað því að loka álverinu, láti Landsvirkjun ekki af „skaðlegri háttsemi sinni“ og kvartað formlega til Samkeppniseftirlitsins vegna þess að félagið telur Landsvirkjun hafa yfirburðastöðu gagnvart álverinu.
Eins og rakið var í fréttaskýringu Kjarnans fyrir skemmstu er þetta ekki í fyrsta sinn sem Rio Tinto hótar því að loka því að loka álverinu í Straumsvík. Í kjaradeilum hafa fyrirhuguð verkföll starfsmanna álversins verið sögð geta valdið því að álverið leggi upp laupana og að auki var fyrirhuguð stækkun álversins sem var hafnað í kosningu sögð „forsenda þess að fyrirtækið geti haldið velli.“