Tvö ný kórónuveirusmit greindust innanlands í gær á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Alls voru 419 sýni greind hjá sýkla- og veirufræðideild svo hlutfall jákvæðra sýna var innan við hálft prósent. Virkum smitum fækkar á milli daga, þau eru nú 117 en voru 122 í gær. Fólki í sóttkví fækkar líka dag frá degi en nú eru 439 í sóttkví miðað við 472 í gær. Einn einstaklingur liggur á sjúkrahúsi vegna COVID-19 líkt og í gær, þó ekki á gjörgæslu.
Á landamærunum greindist einn einstaklingur með virkt smit en þrír einstaklingar bíða mótefnamælingar. Þar var sýni tekið frá 2.075 einstaklingum en í gær tóku hertari reglur á landamærum gildi. Nú þurfa allir að fara í skimun við komuna til landsins og aftur nokkrum dögum síðar eða sæta tveggja vikna sóttkví.
Nýgengi smita hér innanlands heldur áfram að lækka milli daga. 14 daga nýgengi á 100.000 íbúa er nú 16,9 miðað við 17,2 í gær og 18,5 í fyrradag. Á landamærunum hefur nýgengið hækkað á sama tíma, er nú 12,5 miðað við 12,3 í gær og 11,2 í fyrradag.
Að lifa með veirunni
Í morgun hófst samráðsfundur undir yfirskriftinni „Að lifa með veirunni“ á vegum stjórnvalda. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra opnaði fundinn í morgun. Hún sagði samráðið nauðsynlegt til þess að sætta ólík sjónarmið í samfélaginu varðandi sóttvarnaaðgerðir yfirvalda.
Klukkan hálf eitt verða pallborðsumræður þar sem taka þátt Svandís, Alma Möller landlæknir, Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Beint streymi frá samráðsfundinum er á vef stjórnarráðsins.