Sex ný kórónuveirusmit greindust innanlands í gær, öll hjá sýkla- og veirufræðideild sem greindi alls 291 sýni. Hlutfall jákvæðra sýna var því rétt rúmlega tvö prósent. Fimm af þeim sem greindust með kórónuveiruna í gær voru í sóttkví. Í einangrun eru nú 117 en voru 115 í gær.
Fjöldi einstaklinga í sóttkví er nú 919 en í gær voru 850 í sóttkví. Einn einstaklingur liggur á sjúkrahúsi líkt og í gær, þó ekki á gjörgæslu. 14 daga nýgengi fyrir innanlandssmit er nú 18,3 á hverja 100.000 íbúa. Það hefur hækkað dag frá degi síðan 20. ágúst þegar nýgengi var um 15. Þá hafði nýgengi smita lækkað umtalsvert frá því það náði hámarki í um 27 þann 8. ágúst síðastliðinn.
Á landamærunum fóru alls 1365 í skimun. Mótefnamælingar er beðið hjá tveimur einstaklingum. Nýgengi smita á landamærunum er 12,3 á hverja 100.000 íbúa og hefur haldist nokkuð stöðugt síðustu vikuna.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis hafa boðað til upplýsingafundar klukkan 14 í dag. Á fundinum munu Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, og Alma D. Möller, landlæknir, fara yfir stöðu mála varðandi framgang kórónuveirufaraldursins hér á landi ásamt Rögnvaldi Ólafssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni.