Þrír einstaklingar greindust með COVID-19 innanlands í gær. Öll þau sem greindust í gær voru þegar í sóttkví. 113 einstaklingar eru nú í einangrun og breytist sá fjöldi ekki á milli daga. Nýgengi innanlandssmita á hverja íbúa er nú 18,8 líkt og í gær. Alls voru 710 einkennasýni tekin í gær og hlutfall jákvæðra sýna því innan við hálft prósent.
Fjöldi þeirra sem eru í sóttkví breytist heldur ekki á milli daga en nú eru alls 1.072 einstaklingar í sóttkví. Líkt og í gær er enginn sjúklingur inniliggjandi á sjúkrahúsi vegna kórónuveirunnar.
Alls fóru 1.116 einstaklingar í landamæraskimun í gær. Enginn þeirra greindist með smit. Enn er beðið mótefnamælingar frá þremur einstaklingum sem fóru í landamæraskimun í fyrradag en þrír greindust með virkt smit í slíkri skimun þann daginn. Nýgengi smita á landamærunum er nú 9,8 á hverja 100.000 íbúa og lækkar aðeins frá því í gær.