Arnar Már Magnússon, forstjóri flugfélagsins Play, segir í umsögn um ætlaða ríkisábyrgð á lánum til Icelandair Group að áform um fjárhagslega endurskipulagningu Icelandair Group séu óraunsæ.
„Veittur er gálgafrestur með ýmsar skuldbindingar, en þær í engu afskrifaðar eða breytt í hlutafé. Þessar skuldbindingar munu að líkindum á seinni hluta ábyrgðartímans leggjast á að nýju af fullum þunga í viðbót við þann ádrátt sem orðið hefur á lánalínurnar sem eru andlag ríkisábyrgðarinnar. Hafi komið til ádráttar á þessar ríkistryggðu lánalínur verður félagið þá þegar orðið verulega illa statt og því ósennilegt að það standi undir þeirri auknu skuldabyrði sem hlýst af ádrætti á ríkistryggðu lánalínurnar. Greiðslufall mun því blasa við,“ skrifar Arnar Már í umsögn sinni sem birt var í dag á vef Alþingis.
Ríkisendurskoðun hefur þegar bent á það í umsögn að veð ríkisins fyrir ábyrgðinni séu hverfandi. Arnar Már segir að það gefi vísbendingar um að skuldsetning Icelandair Group sé nú þegar orðin ósjálfbær.
Skattfé lagt að veði gegn áformum um samkeppni
Play var kynnt til leiks í nóvember í fyrra. Þá átti eftir að tryggja félaginu fjármögnun og áform þess hafa breyst umtalsvert undanfarið tæpt ár, meðal annars vegna heimsfaraldursins sem geisar. Sá sem fer fyrir hópi fjárfesta í Play í dag er Skúli Skúlason, sem er einn af stofnendum Airport Associtates og Bluebird Cargo, en hann var einnig forstjóri síðarnefnda félagsins á árunum 2007 til 2014. Play hefur ekki enn hafið sig á flug en félagið ætlar að vera tilbúið til þess þegar það opnar aftur fyrir millilandaflug.
Í umsögninni segir að frumvarp Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, um ríkisábyrgð fyrir Icelandair Group virðist sett fram að gefinni þeirri forsendu að áform Play um að hefja flug frá Íslandi um leið og aðstæður leyfa gangi ekki eftir, enda gætu þau áform orðið til þess að raungera þá áhættu sem ætlunin sé að taka með veitingu ábyrgðarinnar. „Að mati Play er það ótækt að ríkið leggi skattfé með þessum hætti að veði gegn áformum félagins um að veita Icelandair Group samkeppni. Með hliðsjón af þessum varnaðarorðum er Alþingi hvatt til ítrustu varfærni áður en sameiginlegir sjóðir almennings eru skuldbundnir með þeim hætti sem frumvarpið leggur upp með.“
Laskaður rekstur fær framhaldslíf
Í umsögn Arnars Más segir að ívilnun úr hófi fram við Icelandair Group sé líkleg til að stuðla að fákeppnismarkaði þar sem félagið, sem hafi reynst erfitt að fóta sig í samkeppnisumhverfi, fái nægjanlegt forskot fyrir tilstuðlan ríkisins til þess að halda öðrum aðilum frá þeim markaði og veita þannig „löskuðum rekstri óverðskuldað framhaldslíf.“
Hann segir að sú áhætta sem felist í frumvarpinu fyrir ríkissjóð sé veruleg. „Lagt er til að félagið geti, á þeim tímapunkti þegar félagið verður komið í ósjálfbæra stöðu fjárhagslega, dregið á lánalínur sem eru ríkistryggðar og þannig stóraukið við skuldir sínar og því gert skuldastöðu sína enn ósjálfbærari en áður. Miklar líkur eru á að þessar skuldir endi á ríkissjóði komi til ádráttar á lánalínurnar, enda eru ekki lögð fram nein raunveruleg veð til tryggingar af hálfu félagsins.“
Telji Alþingi engu að síður ástæðu til þess að koma Icelandair Group til hjálpar með þeim hætti sem lagt sé til í frumvarpinu hvetur Arnar Már til þess að ábyrgðargjaldið verði aðlagað að því sem gert sé ráð fyrir í viðmiðum Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og Framkvæmdarstjórnar ESB og því sem önnur Evrópulönd hafa verið að fara fram á við svipaðar aðstæður nýlega. „Það þýðir að hækka ætti gjaldið verulega og skapa sterkan hvata til þess að félagið losi sig undan ábyrgðinni við fyrsta hentugleika. Einnig er hvatt til þess að sett verði frekari skilyrði fyrir veitingu ábyrgðarinnar, t.d. að tilteknum lendingarheimildum verði afsalað til samkeppnisaðila, svo lágmarka megi þau neikvæðu áhrif sem af henni munu hljótast.“