Tvær ferðaskrifstofur, sem selja ferðir til Íslands, hafa sent fjárlaganefnd Alþingis umsagnir þar sem forsvarsmenn þeirra lýsa yfir áhyggjum af fyrirhugaðri ríkisábyrgð Icelandair Group. Í báðum tilfellum snúa áhyggjur þeirra að því að innan Icelandair Group-samstæðunnar er rekin mun umsvifameiri starfsemi en einungis flugrekstur. Innan hennar eru mörg fyrirtæki sem séu í umtalsverðum og margháttuðum samkeppnisrekstri í ferðaþjónustu innanlands og í flutningastarfsemi hérlendis og erlendis. Ferðaskrifstofurnar tvær, Atlantik og GoNorth, leggjast báðar gegn því að Icelandair Group-samstæðan fái ríkisábyrgð en styðja að flugfélagið Icelandair ehf., eitt dótturfélaga samstæðunnar, fái slíka.
Kjarninn greindi frá því nýverið að stjórnvöld segist ætla að huga sérstaklega að því að ríkisábyrgð á láni til Icelandair Group samrýmdist reglum um ríkisaðstoð, enda eigi ráðstafanir hins opinbera ekki að fela í sér ótilhlýðilega röskun á samkeppni.
Ríkisábyrgðin yrði því tengd með beinum hætti við tap sem er til komið vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á flugrekstur félagsins.
Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) samþykkti í síðustu viku ríkisábyrgð á lánalínu ríkisbankanna Íslandsbanka og Landsbankans til Icelandair Group. Ríkisábyrgðin nær yfir 90 prósent af lánalínunni og er upp á 15 milljarða króna. Nýti Icelandair línuna, og fari samt í þrot, mun íslenska ríkið eignast vörumerkið Icelandair, bókunarkerfi félagsins og nokkur lendingarleyfi þess á lykiláfangastöðum.
Hjálparhönd sem stendur öðrum fyrirtækjum ekki til boða
Í umsögn annarrar ferðaskrifstofunnar, Atlantik, segir að margir geti sannmælts um að flugfélagið Icelandair geti uppfyllt skilyrði ríkisstyrks og ríkisábyrgðar á lánalínu við núverandi aðstæður. Atlantik myndi styðja slíka ákvörðun stjórnvalda til handa flugfélaginu Icelandair í ljósi aðstæðna.
Önnur starfsemi samstæðunnar, fyrir utan flugfélagið, geti hins vegar seint verið skilgreind sem þjóðhagslega mikilvæg. „Það væri með öllu óeðlilegt ef þau eiga nú að njóta frekari stuðnings ríkisins umfram fjölmörg önnur félög hér á landi í sambærilegum rekstri,“ segir í umsögninni.
Þar er tiltekið að fyrirtæki innan Icelandair Group hafi í gegnum árin unnið þétt saman. „flugfélagið Icelandair, ferðaskrifstofan Iceland Travel og hótelsamstæðan Icelandair Hotels hafa búið til vörur á markaði og verðlagt innanhúss með þeim hætti með milliverðlagningu að öðrum aðilum er nær ómögulegt að mæta slíkri samkeppni. Sama gildir um ferðaskrifstofuna Vita og Icelandair[...] Hvernig eiga önnur félög að keppa við slíkt fyrirkomulag hjá fyrirtækjasamsteypu sem nýtur sérstakrar fyrirgreiðslu ríkisins?“
Að mati Atlantik eiga stjórnvöld ekki að þurfa að aðlaga sig að rekstrarlíkan Icelandair Group og því sé breytinga þörf ef ríkið eigi að tryggja áframhaldandi rekstur flugfélagsins. „Skilja þarf algjörlega á milli þeirra fyrirtækja innan samstæðunnar sem þiggja ríkisstuðning og hinna. Það tók ekki langan tíma hjá Icelandair Group nú nýlega að sameina rekstur Air Iceland Connect við rekstur Icelandair. Miðað við markaðsstöðu annarra félaga innan Icelandair Group ættu þau eftir sem áður að vera nægilega öflug saman til þess að mynda ein og sér sjálfstæða einingu á íslenskum hlutabréfamarkaði til hliðar við flugfélagið Icelandair.“
Gunnar Rafn Birgisson, stjórnarformaður og eigandi Atlantik, skrifar umsögnina. Þar rifjar hann upp að Atlantik sé fjölskyldufyrirtæki sem hafi verið starfandi í 42 ár á sömu kennitölu. „Við núverandi aðstæður höfum við neyðst til þess að segja upp 80% af öllu okkar starfsfólki og horfum fram á mjög erfiða tíma og enn erfiðari ef úr verður að beinir samkeppnisaðilar okkar innan Icelandair Group sem eru ekki í flugrekstri verði veitt hjálparhönd í gegnum Icelandair Group, hjálparhönd sem öðrum fyrirtækjum stendur ekki til boða.“
Gæti skekkt verulega samkeppnisstöðu
Ferðaskrifstofan GoNorth hefur einnig sent inn umsögn sem er að svipuðu meiði. Undir hana skrifar Unnur Svavarsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.
Þar segir að GoNorth taki undir það að flugfélagið Icelandair sé innlendri ferðaþjónustu gríðarlega mikilvægt og það geti skipt sköpum fyrir framtíðar enduruppbyggingu ferðaþjónustunnar að flugfélagið starfi áfram. „En innan Icelandair Group eru hins vegar fyrirtæki sem starfa á samkeppnisgrundvelli og margir innlendir aðilar vel í stakk búnir að sinna þeim þáttum ferðaþjónustu, svo sem ferðaskrifstofurekstur sem er í höndum Iceland Travel (innan Icelandair Group) og hótel rekstur sem er í höndum Icelandairhotels (innan Icelandair Group).“
Stjórnendur og eigendur GoNorth vilja að Icelandair ehf. verði veitt ríkisábyrgð, ekki móðurfélaginu Icelandair Group. „Við teljum að með því að veita móðurfélaginu Icelandair Group ríkisábyrgðir, sé verið að styðja við öll félögin innan samsteypunnar og það getur skekkt verulega samkeppnisstöðu og veitt Icelandair tengdum félögum í hinum ýmsu greinum ferðaþjónustunnar forskot, sem önnur félög búa ekki við. GoNorth styður það heilshugar að flugfélaginu Icelandair sé veitt ríkisábyrgð, en ekki móðurfélaginu Icelandair Group.“