Ekki hefur komið til tals hjá stjórnendum Vesturverks og HS orku að slá Hvalárvirkjun í Árneshreppi út af borðinu þó að hægja hafi þurft verulega á verkefninu. Hins vegar munu frekari rannsóknir á næstu árum bæta þann grunn sem ákvörðun um „ að byggja eða byggja ekki“ verður tekin á.
Þetta segir Ásbjörn Blöndal, stjórnarformaður Vesturverks og framkvæmdastjóri þróunar hjá HS orku, í samtali við Kjarnann. Í vor var skrifstofu Vesturverks á Ísafirði lokað og öllum starfsmönnum sagt upp. Til stóð að hefja undirbúningsframkvæmdir í sumar en af þeim varð ekki.
„Ég bara veit það ekki,“ svarar Ásbjörn spurður hvenær framkvæmdir við virkjunina gætu hafist fyrst enn sé stefnt að byggingu hennar. Biðstaða er að hans sögn framundan vegna mikilla breytinga á raforkumarkaði og ákvarðanir um næstu skref stjórnist af eftirspurn eftir raforku. Hann segir lítið hægt að gera til að bæta þessu fámennasta sveitarfélagi landsins, þar sem í hreppsnefnd sitja dyggir stuðningsmenn virkjunarinnar, upp fyrir tafirnar og óvissuna sem framundan er en bendir á að hægt sé að bæta raforkuöryggi og koma á þrífösun rafmagns án Hvalárvirkjunar. Dreifiveita beri ábyrgð á því að færa kerfin til nútímahorfs og nú skapist eflaust þrýstingur á að hrinda slíkum verkefnum sem og öðrum í framkvæmd.
Hvalárvirkjun hefur verið á teikniborðinu í mörg ár. Hún var sett inn á aðalskipulag Árneshrepps árið, 2014 og er í nýtingarflokki rammaáætlunar en hefur lengi verið umdeild, bæði meðal íbúa hreppsins og annarra. Virkjunin yrði byggð í eyðifirðinum Ófeigsfirði og samkvæmt áformunum yrði rennsli þriggja áa á Ófeigsfjarðarheiði virkjað: Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðarár. Byggðar yrðu fimm stíflur við heiðarvötn til að mynda þrjú miðlunarlón. Virkjunin yrði 55 MW og orkuframleiðslan um 320 gígavattstundir á ári (Gwh). Hið fyrirhugaða virkjanasvæði er í miðju mestu víðerna Vestfjarða.
Ætlunin var að hefja undirbúningsframkvæmdir í sumar í samræmi við framkvæmdaleyfi sem var svo ekki endurnýjað í júní og er því útrunnið. „Sökum þess að við vorum aðeins farnir að skoða það að hægja á þá var tekin sú ákvörðun að vera ekki að raska einu né neinu að svo komnu máli,“ segir Ásbjörn. Spurður hvort fyrirtækið getið sótt um endurnýjun á framkvæmdaleyfinu með stuttum fyrirvara segir hann það hægt „ef að það er komin meiri vissa um verkefnið“.
Margvíslegar aðstæður á markaði gera það að verkum „að tímapunkturinn til að keyra Hvalárverkefnið á fullu áfram er ekki réttur,“ segir Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá HS orku, við Kjarnann. Og að vegna aðstæðna sem nú eru uppi sé „ekki hægt að gefa ákveðinn tímaramma um það hvenær bygging virkjunarinnar hefst“.
Aðstæðurnar sem Jóhann Snorri talar um voru tilkomnar áður en að heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á. „COVID hefur eingöngu bætt á erfiðar markaðsaðstæður,“ segir hann. „Það sem hefur gerst, óháð COVID, er að tvö kísilver sem voru komin í rekstur hafa hætt rekstri í það minnsta tímabundið sem dregur umtalsvert úr raforkunotkun á litlum markaði. Þá hefur álverið í Straumsvík dregið umtalsvert úr aflnotkun sinni. Loks hefur hægst verulega á vexti gagnavera á Íslandi af margvíslegum ástæðum og jafnvel dregið úr, meðal annars vegna breyttrar samsetningar viðskiptavina. Hlutfall rafmyntagraftrar hefur minnkað en í staðinn er að aukast önnur þjónusta hjá þeim sem nýtir minna rafmagn í sama húsnæði.“
Hann segir farsóttina svo hafa þau áhrif að ekki séu í gangi miklar viðræður um uppbyggingu erlendra aðila á Íslandi auk þess sem almenni markaðurinn hafi einnig dregist saman. „Ákvörðun um að hægja á Hvalárvirkjun hafði verið rædd áður en COVID skall á enda voru blikur á lofti varðandi raforkuþörf á Íslandi sem staðfestar voru af raforkuhópi orkuspárnefndar, en hópurinn mældi í fyrsta sinn í langan tíma samdrátt í raforkunotkun milli áranna 2018 – 2019.“
Ásbjörn, sem tók við stjórnarformennsku í Vesturverki fyrir um ári af Ásgeiri Margeirssyni, fyrrverandi forstjóra HS orku, segir að strax árið 2018, jafnvel fyrr, hafi verðlag á markaði farið lækkandi. „Þannig að snemma árs í fyrra vorum við byrjaðir að athuga hvort við værum í réttum takti með þetta verkefni miðað við markaðinn. Það var eiginlega niðurstaðan að hægja á og sjá til hvernig mál þróuðust hérna á næstunni. Það var ekki mikið mál þar sem við erum með alla valkosti Vesturverks á rannsóknarstigi.“
Hvalárvirkjunarverkefnið sé þó ekki stopp því verið sé að sinna „nauðsynlegum rannsóknum sem bæta þá aðstöðu okkar þegar þar að kemur til að taka ákvörðun um að byggja eða byggja ekki“.
Þær rannsóknir lúta fyrst og fremst að frekari vatnamælingum á Ófeigsfjarðarheiði. „Að öðru leyti höldum við bara sjó og keyrum verkefnið áfram í ró og spekt.“
Um miðjan apríl höfðuðu eigendur eyðijarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi mál fyrir héraðsdómi Reykjavíkur á hendur eigendum jarðanna Engjaness og Ófeigsfjarðar þar sem þess er krafist að viðurkennt verði að landamerki Drangavíkur gagnvart jörðunum séu eins og þeim er lýst í þinglýstum landamerkjabréfum frá árinu 1890. Verði krafa landeigendanna staðfest mun það þýða að Eyvindarfjarðará og Eyvindarfjarðarvatn, sem til hefur staðið að nýta til Hvalárvirkjunar, eru inni á landi í eigu fólks sem kærir sig margt hvert ekki um virkjunina.
Hafði landamerkjamálið, sem kom upp skömmu áður en ákveðið var að loka skrifstofu Vesturverks og hægja á framkvæmdinni, áhrif á þá ákvörðun?
„Nei, ekki neitt,“ svarar Ásbjörn. Hann segir Vesturverk ekki beinan aðila að málinu og er ekki kunnugt um hvar málið er statt.
Hins vegar gæti það haft einhver áhrif á Hvalárvirkjunarverkefnið þar sem það snerti efsta hluta vatnakerfisins sem fyrirhugað er að nýta til virkjunarinnar. Ekki hafi hins vegar verið reiknað út hvort að virkjunin yrði arðbær án vatnasviðs Eyvindarfjarðarár. „Við erum náttúrlega sífellt að endurmeta arðsemi verkefnisins, eins og markaður leyfir og svo framvegis. Þetta yrði bara einn þáttur í því, ef þar að kemur og ef af verður.“
Gjöbreytt landslag
Ásgeir Margeirsson sagði í viðtali við mbl.is haustið 2017 að framleiðsla rafmagns í Hvalárvirkjun myndi mögulega hefjast á árunum 2023-2024. Hann sagði ennfremur að eftirspurn eftir raforku væri mun meiri en framboðið og nefndi gagnaverin helst í því sambandi.
Nú, haustið 2020, er allt gjörbreytt.
Ásbjörn segir það ekki hafa verið rætt, hvorki af hálfu Vesturverks né HS orku, að slá verkefnið út af borðinu. „Við höldum ótrauð áfram en með þessum breytta takti. Við erum að eyða einhverjum tugum milljónum króna í ár í rannsóknir.“
En er þá eitthvað hægt að segja til um hvenær virkjunin verður byggð? Erum við að tala um á næstu 5 árum eða næstu 10 árum?
„Ég bara veit það ekki,“ segir Ásbjörn. „Þetta fer allt eftir markaðsaðstæðum hér heima. Er þörf á raforku eða ekki? Hvað kallar rafvæðingin á mikla orku? Halda álverin velli? Fer kísiliðnaðurinn aftur af stað? Óvissan er allmikil. En Hvalárvirkjun er þó í nýtingarflokki rammaáætlunar og það eru verkefnin sem fara fyrst í gang.“
Til staðar séu samningar við landeigendur í Ófeigsfirði og Eyvindarfirði um vatnsréttindi og við þá þurfi að nást sátt, verði langur dráttur á verkefninu. Í samningunum sé sett fram ákveðin hugmynd að framvindu og upplýsa þurfi hlutaðeigandi um fyrirsjáanlegar breytingar á henni. Sömu sögu sé að segja um sveitarfélagið.
Óásættanleg staða
Í ágúst var samþykkt ályktun á fundi hreppsnefndar Árneshrepps þar sem segir að nefndin telji „mjög brýnt“ að „áformum um virkjun Hvalár“ verði haldið til streitu. „Atvinnuuppbygging á Vestfjörðum hefur liðið mikið fyrir skort á raforku og því með öllu óásættanlegt að málum sé sífellt frestað og sett í biðstöðu.“
Ásbjörn segist gera sér grein fyrir þeim áhrifum sem frestun framkvæmdarinnar hafi enda hreppsnefndin öll stutt verkefnið dyggilega. Íbúar hafi vænst þess að virkjun myndi fylgja umbætur á borð við þrífösun rafmagns, tryggara afhendingaröryggi raforku og samgöngubætur. „Ég held að hreppurinn hafi nú eflaust horft til þess að það væri eitthvað ljós fyrir endann á gangnamunanum.“
Finnið þið ekki til ábyrgðar gagnvart þessu sveitarfélagi, eftir að hafa í öll þessi ár ýtt á þetta verkefni, fengið til þess mikinn stuðning en svo er því frestað og enginn veit hvert framhaldið verður?
„Við vitum ekkert annað en að það er verið að keyra verkefnið í öðrum takti heldur en var,“ svarar Ásbjörn. „Við höfum gert sveitarfélaginu grein fyrir því. Meira getum við í raun og veru ekki gert. Og vonandi rætist úr síðar, sem fyrst.“
Ekki sé hægt að ráðast í framkvæmd án þess að fjárhagslegar forsendur séu fyrir hendi. „Þetta eru gríðarlega fjárfrekar framkvæmdir. Það þarf að vanda vel til verka þegar ráðist er í verkefni af þessu tagi.“
Ábyrgð dreifiveitunnar
Á meðan Hvalárvirkjun er enn á teikniborðinu, en óvíst er hvenær hún rís og jafnvel hvort, verður að teljast ólíklegt að aðrar stórar hugmyndir sem upp hafa komið, á borð við þjóðgarð, fái brautargengi í hreppsnefnd sveitarfélagsins. Spurður um þessa klípu, ef svo mætti kalla, sem Árneshreppur er í, jafnvel til margra ára, segir Ásbjörn að á dögunum hafi verið kynnt ýmis verkefni sem til standi að fara í norður á Ströndum.
Nýverið voru veittir styrkir til 13 verkefna í hreppnum úr frumkvæðissjóði brothættra byggða. Þau tengjast flest ferðaþjónustu í hreppnum og endurbótum á sundlauginni í Krossnesi. Úthlutað var tæpum fimmtán milljónum króna.
„Það er dreifiveita í hreppnum,“ bendir Ásbjörn svo á. „Auðvitað myndast kannski einhver pressa á að flýta einhverjum framkvæmdum, bæta úr afhendingaröryggi og því að hægt verði að byggja eitthvað upp á staðnum.“
Þannig að það ætti að vera hægt með öðrum leiðum heldur en Hvalárvirkjun?
„Já, það er þarna dreifiveita sem er með einhverja ábyrgð á því að kerfi séu færð til nútíma horfs.“
Ábyrgð á dreifingu rafmagns á Vestfjörðum liggur hjá Orkubúi Vestfjarða sem er að fullu í eigu ríkisins. Í umræðunni um Hvalárvirkjun síðustu ár hefur margoft verið nefnt af stuðningsmönnum hennar að hún myndi auka afhendingaröryggi á Vestfjörðum. „Það hefur margsinnis komið fram í skýrslum frá Landsneti að afhendingaröryggi og afhendingargeta á svæðinu er takmörkuð,“ segir Ásbjörn. „Þetta er sennilega sá fjórðungur sem kemur síst út á landinu. Það er eitthvað sem þyrfti að takast á við sameiginlega. Það getur vel verið að ríki, sveitarfélög og allir þurfi að leggjast á eitt að bæta úr svo það hamli ekki atvinnuuppbyggingu á svæðinu.“
Engu tapað
Ásbjörn telur ekkert benda til þess að aðstæður á raforkumarkaði muni breytast á næstunni. Biðstaða verði líklegast fram á næsta ár. Til standi að ræsa kísilverið á Bakka, sem hætti tímabundið starfsemi í sumar, að nýju við upphaf næsta árs. „Við eigum eftir að sjá það gerast. Á meðan þeir eru niðri þá er mikið afl á lausu.“
Áfram verða stundaðar rannsóknir í tengslum við Hvalárvirkjunarverkefnið. „Með hverju árinu sem við stundum rannsóknir þá erum við í rauninni að bæta grunninn fyrir ákvarðanatöku. Þannig að við teljum okkur ekki vera að tapa neinu eða missa af einhverju. Engan veginn.“