Yfir 100 minkabúum í Hollandi verður lokað er minkarækt verður bönnuð í mars á næsta ári. Til stóð að öllum loðdýrabúum í landinu yrði lokað árið 2024 en í kjölfar þess að kórónuveirusýking kom upp meðal dýra og manna á búunum ákváðu stjórnvöld að flýta lokuninni.
Árlega eru 2,5 milljónir minka aldir upp á búum í Hollandi og er landið fjórði stærsti framleiðandi minkaskinna í heiminum á eftir Danmörku, Kína og Póllandi.
Í vor kom í ljós að minkar gætu sýkst af kórónuveirunni sem veldur COVID-19 og þegar í apríl var ljóst að starfsmenn á einu búanna höfðu smitast af dýrunum. Í sumar hafði veiran breiðst út til fleiri búa eða um þriðjungs allra minkabúa í Hollandi. Fella þurfti öll hin sýktu dýr og grípa til mjög harðra sóttvarnaaðgerða. Farga þurfti svo hræjum dýranna en bændum voru greiddar bætur fyrir tapið á skinnunum.
Í júní samþykkti hollenska þingið að öllum minkabúum í landinu yrði lokað sem allra fyrst og í lok ágúst samþykkti ríkisstjórnin að öllum búunum skyldi lokað fyrir mars á næsta ári. Einnig var samþykkt að greiða loðdýrabændum samtals 150 milljónir evra í bætur eða um 1-1,5 milljónir evra til hvers þeirra að meðaltali sem er um 160-250 milljónir króna.
Dýraverndarflokkurinn á fjögur sæti af 150 á hollenska þinginu. Árið 2013 leiddi hann baráttu fyrir því að loðdýrarækt yrði hætt en þá var ákveðið að eigendur búanna hefðu frest til ársins 2024 til að hætta rekstri.
Loðdýrabændur segja að miðað við nútíma reglugerðir séu minkar aldir við mannúðlegar aðstæður. Þessu hafna dýraverndunarsinnar og segja ómögulegt að halda slíku fram þegar dýrin eru alin í búrum. Kannanir hafa sýnt að mikill meirihluti Hollendinga er mótfallinn loðdýrarækt.
Í sumar hefur þurft að drepa 1,1 milljón minka á 26 hollenskum minkabúum vegna kórónuveirusýkinga. Smit hafa einnig komið upp í minkabúum í Danmörku og á Spáni og farga þurfti yfir 90 þúsund dýrum á einu búi á Spáni eftir að níu af hverjum tíu dýrum reyndust sýkt af kórónuveirunni.