Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður Seðlabanka Íslands varpaði í málflutningi sínum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag ljósi á það hvaða efnisatriði það voru sem Seðlabanki Íslands kærði Samherja og tengda aðila fyrir árið 2013. Þau hafa ekki verið opinberuð áður.
Fram kom hjá Jóhannesi að mál Seðlabankans hefði í raun verið þríþætt. Það snerist í fyrsta lagi um meint brot erlendra félaga tengdum Samherja gegn skilaskyldu á erlendum gjaldeyri til Seðlabanka Íslands, í öðru lagi um meint skilaskyldubrot félaga tengdum Samherja á Íslandi og í þriðja lagi um meint brot sem vörðuðu milliverðlagningu á þremur fisktegundum.
Jóhannes sagði að meint brot sem vörðuðu dóttur- og dótturdótturfélög Samherja úti í heimi væru langstærsti þátturinn af þessu þrennu, en í þeim hefðu samkvæmt rannsóknarskýrslu gjaldeyriseftirlitsins verið andvirði 67 milljarða króna í erlendum gjaldeyri undir.
Þessum gjaldeyri hefði ekki verið skilað til Íslands, þrátt fyrir að Seðlabankinn teldi að erlendu félögin ættu í reynd að teljast innlendir aðilar og þar með skila gjaldeyri sem slíkir á tímum gjaldeyrishaftanna sem sett voru á eftir efnahagshrunið árið 2008.
Katla Seafood Limited
Ástæðan fyrir því að Seðlabankinn taldi að flokka ætti erlendu félögin sem innlenda aðila er sú að bankinn taldi að þeim væru raunverulega stjórnað frá Íslandi, af íslenskum einstaklingum. „Aðalmálið“ af þessu tagi, sagði Jóhannes, varðar félagið Katla Seafood Limited, sem eitt sinn var skráð í Belís í Mið-Ameríku en síðar á Kýpur.
Jóhannes sagði að Seðlabankinn hefði séð það í bókhaldsgögnum Samherjasamstæðunnar að þetta félag hefði selt fiskafurðir fyrir 55 milljarða króna í erlendum gjaldeyri, sem ekki hafi skilað sér til Íslands. Í rannsóknarskýrslu Seðlabankans kom fram að hjá þessu félagi væru engir starfsmenn. „Þó að þetta væri sölufélag sem velti milljörðum þá var enginn sem tók upp símann og tók við sölupöntun,“ sagði lögmaðurinn.
Jón Óttar Ólafsson, sem starfaði sem verktaki Samherja, meðal annars við það að rannsaka hvort einhver „súbstans“ væri í þessum erlendu félögum, gat ekki staðfest við vitnaleiðslu í morgun að þetta félag hefði verið með einhverja starfsmenn. Hann sagði að þessu félagi hefði þó ekki verið stýrt frá Íslandi, heldur frá Las Palmas á Kanaríeyjum, þar sem sannarlega hefðu verið starfsmenn til staðar.
Skilaskylda innlendra félaga
Jóhannes sagði dóminum að að hann teldi að það væri alveg rétt að Samherji hf., móðurfélagið sjálft, hefði skilað gjaldeyri til Íslands eftir því sem félagið fékk greitt fyrir vörur og þjónustu.
Ágreiningur Seðlabankans við skil innlendra félaga samstæðunnar á gjaldeyri hefði hins vegar snúið að öðrum þáttum, fjármagnstekjum og uppgjöri á afleiðusamningum, en að „stóri punkturinn“ varðandi meint brot á skilaskyldu gjaldeyris innanlands hefðu snúist um félag sem í dag heitir Axel hf., en hét áður Katla Seafood ehf. Þar voru 14 milljarðar undir.
Lögmaðurinn sagði að þegar Seðlabankinn hefði farið að leita að innborgunum á gjaldeyri, sem Axel hf. hefði átt að standa skil á, hefðu þær ekki fundist nema að litlum hluta. Fundist hefði 3-4 milljarðar af alls um það bil 14 milljörðum, sem hefðu samkvæmt söluyfirliti átt að renna til landsins. Það var tíu milljarða gat.
Seðlabankinn taldi tvennt skýra þetta gat. Annars vegar skuldajafnanir innan Samherjasamstæðunnar og hins vegar greiðslur upp á einn og hálfan milljarð til þriðja aðila, inn á persónulegan gjaldeyrisreikning erlendis. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja sagði í skýrslutöku í morgun, spurður út í þetta, að Axel hf. hefði skuldað sér persónulega fjármuni.
Milliverðlagning á þremur fisktegundum
Veigaminnsti þátturinn sem Seðlabankinn kærði fyrir á sínum tíma laut svo að milliverðlagningu á þremur fisktegundum. Jóhannes lögmaður sagði þau meintu brot snúast um hvort fiskurinn hefði verið seldur á réttu verði innan samstæðu Samherja og voru alls tíu fisktegundir teknar til skoðunar. Seðlabankinn komst að þeirri niðurstöðu að það væri eitthvað athugavert við verðlagningu þriggja þeirra; bleikju, karfa og ufsa.
„Þarna erum við ekki að tala þessa gölluðu útreikninga, þetta er vegið meðaltal,“ sagði lögmaðurinn, en niðurstaða Seðlabankans varð sú að í heildina hefði þarna „mögulega skeikað 270 milljónum“ í heildina.
... og þá að máli dagsins í dag
Þetta hér að ofan er á meðal þess sem kom fram við aðalmeðferð skaðabótamáls Samherja gegn Seðlabankanum sem fram fór í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og hefur ekki legið fyrir opinberlega áður, en mikil leynd hefur verið yfir öllum efnisatriðum kæranna á hendur Samherja, sem ekkert varð síðan úr sökum þess að í ljós kom að Seðlabankinn hafði ekki gildar refsiheimildir í málum sem þessum.
Ástæðan fyrir því er sú að þáverandi ráðherra bankamála ritaði ekki undir reglugerð sem veitti gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands þá heimild sem stjórnvöld ætluðu því til að refsa lögaðila eins og Samherja.
Í greinargerð lögmanns Seðlabankans vegna þessa máls, sem Kjarninn fékk afhenta og fjallaði um í fréttaskýringu fyrr í sumar, var strikað með svörtu yfir öll efnisatriði rannsóknar bankans á hendur Samherja.
Samherji vill að Seðlabankinn greiði fyrirtækinu tæpar 290 milljónir í skaðabætur vegna kostnaðar sem hlaust af rannsókn bankans á hendur Samherja og Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri vill einnig nokkrar milljónir til viðbótar í persónulegar skaðabætur.
„Menn vissu að þeir máttu ekki gera þetta“
Garðar Gíslason lögmaður Samherja sagði að framganga Seðlabankans í málinu hefði verið ólögmæt og viðhöfð af ásetningi. „Menn vissu að þeir máttu ekki gera þetta,“ sagði lögmaðurinn og bætti við að þetta væru stór orð, en að minnsta kosti hefði verið um stórkostlegt gáleysi að ræða af hálfu Seðlabankans.
Það hefðu nefnilega verið „verulega miklar efasemdir og rúmlega það,“ um refsiheimildir Seðlabankans innan gjaldeyriseftirlitsins sjálfs. Hann sagði Seðlabankann hafa gengið hart fram og sagðist ekki skilja hvernig mönnum hefði dottið í hug að „fara í þetta ferðalag sem þeir fóru í.“
Jóhannes Karl lögmaður Seðlabankans sagði að ekki væri um það deilt að málarekstri Seðlabankans gegn Samherja væri lokið, en þar sem aldrei hefði verið dæmt um rannsóknarefnin væri staðan ankannaleg.
Hann sagði að þó að aðgerðirnar sem beindust gegn Samherja af hálfu Seðlabankans hefðu ekki leitt til sakfellingar, leiddi það ekki sjálfkrafa til þess að þær væru bótaskyldar og vísaði m.a. í lyktir Aserta-málsins svokallaða í því samhengi, máli sínu til stuðnings.
Nokkuð mikið var rætt um húsleitina hjá Seðlabankanum í mars árið 2012 sem að einhverju leyti var upphaf þessa máls og þeirrar atburðarásar sem síðan fór í hönd, af hálfu lögmannanna tveggja.
Jóhannes Karl sagði að stóra myndin í málinu væri sú að Seðlabankinn hafi árið 2010 hafið eftirlit með skilum stærstu útflutningsfyrirtækja landsins á erlendum gjaldeyri, gert úttekt á þeim nokkrum og beðið um upplýsingar um erlenda bankareikninga.
Gögn sem Seðlabankinn safnaði um gjaldeyrisskil á árunum 2008 og 2009 voru svo borin saman við gögn frá Tollstjóra og gaf skýrsla sem gerð var í kjölfarið vísbendingar um að Samherji og Icelandic Seafood hefðu brotið gegn reglum um skilaskyldu.
Í febrúarmánuði árið 2012 hafi bankanum svo borist ábendingar frá fréttamanni um svokallaða milliverðlagningu. Þá hafi bankinn ráðist í að gera nýja útreikninga og þannig hafi atburðarásin farið í gang sem leiddi til þess að bankinn fékk dómsúrskurð ti þess að ráðast í húsleit á starfsstöðvum Samherja í Reykjavík og á Akureyri.
Jóhannes Karl sagði að í úrskurði um húsleitina kæmi fram, að dómari teldi „ríkar ástæður“ til að ætla að brotið hefði verið gegn fyrirmælum um skilaskyldu. Lögmaðurinn rökstuddi að nauðsynlegt hefði verið að ráðast í þessar húsleitir, þar sem eðli upplýsinganna hefði verið „um þannig málefni að það er ekki hægt að ræða sig á það að fá allt upp í hendurnar.“
„Það er ekkert sagt Samherja til hnjóðs, það er bara þannig,“ sagði lögmaðurinn og bætti við að það sem Seðlabankinn hefði verið að rannsaka væri þess eðlis að það væru engin vitni og í raun ekkert tiltækt nema bókhald fyrirtækjanna sem í hlut ættu, sem þyrfti að fara yfir í heild sinni til að sjá að hvaða marki grunsemdir væru á rökum reistar.
Efins um útlagðan kostnað Samherja
Jóhannes Karl gerði verulegar athugasemdir við þann útlagða kostnað verktaka sem Samherji vill fá bættan. Þannig sagði hann til dæmis að það væri „engin afurð“ af þeirri vinnu sem tvö félög Jóns Óttars Ólafssonar hefðu sinnt fyrir Samherja og ekkert í útgefnum reikningum varpaði ljósi á það hvað hann hefði verið að gera.
Las lögmaðurinn upp úr reikningum vegna vinnu hans útskýringar á því sem félög Jóns Óttar voru að rukka fyrir. Þar var meðal annars rukkað fyrir „vinnu tengda Máritaníu“ og „leit að niðurfellingarbréfi.“ „Af hverju er verið að fjalla um málefni Máritaníu í þessu máli?“ spurði lögmaðurinn og sagði að það væri lítið hægt að gera með þennan kostnað, sem alls nam rúmum 130 milljónum.
Því næst fór að hann að ræða kostnað sem ein lögmannsstofa hefði rukkað fyrir og þar sagði Jóhannes Karl að ýmislegt væri sem ekki væri hægt að sjá að tengdist málinu beint.
Á meðal þess sem Samherji er að reyna að fá bætt og þessi lögmannsstofan rukkaði félagið fyrir var m.a. vinna við kæru Samherja á hendur dómarans sem samþykkti húsleitarbeiðni Seðlabankans. Einnig rukkaði lögmannsstofan fyrir vinnu við kæru til Mannréttindadómstóls Evrópu, sem Jóhannes Karl sagði ekki geta verið hluti af þessu máli. Þá rukkaði lögmannstofan, að sögn Jóhannesar, Samherja fyrir „fund með þingmönnum“ og skrif á bréfi til starfsmanna Samherja.
Önnur lögmannsstofa rukkaði svo Samherja fyrir m.a. vinnu við yfirferð tölvupósta, skoðun einhverra gagna frá Kýpur og „ritun greina í Morgunblaðið,“ sem Jóhannes Karl sagði að ekki væri sýnt fram á að tengdust þessu máli beint.