Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, segir að Seðlabankinn hafi sakað Samherja um að hafa vanrækt skil á alls 85 milljörðum á gjaldeyri til Íslands. Þetta kom fram í máli forstjórans við aðalmeðferð í skaðabótamáli Samherja gegn Seðlabanka Íslands, sem fer fram í dag.
Þorsteinn Már var fyrstur að gefa skýrslu í málinu, sem snýst um það að Samherji krefur Seðlabankann um 306 milljóna skaðabætur og tíu milljónir króna í miskabætur vegna skaða sem Samherji segir að rannsókn Seðlabankans hafi valdið fyrirtækinu. Auk þess höfðaði Þorsteinn Már persónulega mál á hendur bankanum af sömu sökum og fer fram á 6,5 milljónir króna í bætur.
Þorsteinn Már fór mikinn á tímabili við skýrslutökuna og sakaði Seðlabankann ítrekað um að hafa gengið ótilhlýðilega fram gagnvart Samherja.
Hann sagði að aðgerðirnar hefðu verið svo íþyngjandi að eigendur Samherja hafi orðið „hræddir um að missa fyrirtækið“ sökum þess að aðgerðirnar takmörkuðu aðgang Samherja að fjármagni og að vinnan sem Samherji hafi lagt í til þess að að átta sig á því hvað fyrirtækið var sakað um af hálfu Seðlabankans hafi verið algjörlega „botnlaus“, en Samherji er að krefja Seðlabankann um að endurgreiða bæði innri og ytri kostnað fyrirtækisins vegna aðgerða Seðlabankans.
„Við vorum alltaf að reyna að finna – hvað var það sem við gátum hafa gert rangt?“ sagði Þorsteinn Már, sem hækkaði nokkrum sinnum raustina þegar hann var að svara spurningum frá lögmanni Seðlabankans og fór stundum að tala um hluti ótengda eða laustengda því sem spurt var um.
Dómari sagði betra að „halda þessu við stofuhita“
„Ég er ekki að tala neitt um karfa,“ greip lögmaður Seðlabankans meðal annars fram í fyrir Þorsteini á einum tímapunkti, þegar umræðan hafði færst frá spurningu hans og að karfa. Kjartan Bjarni Björgvinsson dómari málsins sagði að best væri að „halda þessu við stofuhita“ og upplýsa málið með því að svara þeim spurningum sem settar væru fram.
Arna McClure yfirlögfræðingur Samherja kom fyrir dóminn og sagði að Samherji hefði lagt í mikla og afar kostnaðarsama vinnu við að reyna að komast að því hvað fyrirtækið var sakað um af hálfu Seðlabankans. Hún var beðin um að skýra þennan kostnað, en Seðlabankinn byggir á því í þessu skaðabótamáli að kostnaður Samherja geti ekki talist sannanlegur og eðlilegur.
„Ef að Samherji var að gera eitthvað rangt sem okkur var ekki kunnugt um vildum við fyrir alla muni ekki halda því áfram,“ sagði Arna, sem rak síðan kostnað fyrirtækisins, en eins og Kjarninn greindi frá fyrr í dag fólst stærsti hluti hans í vinnu Jóns Óttars Ólafssonar afbrotafræðings, alls rúmar 130 milljónir króna.
Arna sagði að vinna Samherja hefði meðal annars snúist um það að fara á starfsstöðvar erlendra félaga í eigu Samherja, en það sem Seðlabankinn taldi í málatilbúnaði sínum gagnvart Samherja, var að erlendum félögum í eigu Samherja hefði í reynd verið stýrt frá Íslandi og því bæri þeim að skila gjaldeyri líkt og innlendum aðilum.
Lögmaður Seðlabankans í málinu sagði að Seðlabankinn hefði haft þá „kenningu“ í rannsóknarskýrslu sinni að stærsti hlutinn af meintum vanræktum skilum á gjaldeyri væru vegna fyrirtækisins Kötlu Seafood Limited á Kýpur, eða um 50 milljarðar króna. Þorsteinn Már sagði að þarna væri ekki farið rétt með upphæðina, en aðspurður sagði hann að Katla Seafood hefði veitt fisk í Afríku og seldi fisk í Afríku.
Arna sagði að þetta hefði Samherji ekki fengið að vita fyrr en löngu eftir að málið var farið af stað og raunar ekki fyrr en að ríkissaksóknari komst að þeirri niðurstöðu að Samherji ætti rétt á að fá gögn málsins. Á þeim tímapunkti hafði Seðlabankinn kært starfsmenn Samherja persónulega.
Nauðsynlegt að sýna fram á „súbstans“ í erlendum dótturfélögum
Jón Óttar Ólafsson, afbrotafræðingur og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfaði fyrir Samherja, kom fyrir dóminn og lýsti þessu svo: „Seðlabankinn var með tölvupósta sem hann hafði handlagt á Íslandi og var að túlka út frá því hvernig stjórnun ýmissa erlendra dótturfélaga hefði verið háttað. Við þurfum að fara erlendis og ná í gögn sem Seðlabankann vantaði,“ sagði Jón Óttar, en hann og Arna unnu náið saman við þetta.
Jón Óttar sagði að þegar farið hefði verið út í heim til staða eins og Kanaríeyja og Kýpur og til dótturfélaga Samherja þar, hafi komið „í ljós að þessir póstar sem Seðlabankinn var að túlka hér heima var bara eitt prómill af þeim póstum sem voru til staðar í rekstri þessara félaga.“
„Það var nauðsynlegt fyrir okkur að sýna fram á að það væri „súbstans“ í rekstri félaganna erlendis,“ sagði Jón Óttar, sem sagði að ásakanirnar hefðu haft „gríðarleg áhrif á lykilstarfsmenn Samherja.“ Það taldi Jón Óttar ástæðuna fyrir því að Samherji hefði þurft að kaupa aðkeypta þjónustu á borð við hans til þess að rýna í málið, starfsmenn félagsins hefðu einfaldlega ekki verið færir um það.
Lögmaður Seðlabankans spurði Jón Óttar sérstaklega út í félagið Kötlu Seafood Limited á Kýpur, en Seðlabankinn telur að það félag hafi í reynd verið rekið frá Íslandi. Jón Óttar var spurður hvað þetta félag á Kýpur hafði marga starfsmenn. Hann sagðist ekki vita það. Lögmaður Seðlabankans spurði þá hvort hann teldi félagið hafa haft einhvern starfsmann. „Ég myndi þurfa að athuga það,“ sagði Jón Óttar þá.
Jón Óttar sagðist hafa komist að því við skoðun sína á þessu félagi að að það hefðu verið samningar á milli þess og rekstarfélags á Las Palmas. Þar hafi verið fullt af starfsmönnum. „Það er rekið í raun og veru frá öðrum löndum en ekki Íslandi. Þetta er dálítið mikið atriði,“ sagði Jón Óttar og sagði að þetta hefði farið framhjá Seðlabankanum.
„Það sem þeir sáu aldrei almennilega skýrt var hvernig reksturinn var fyrir utan gjaldeyrishöftin,“ sagði Jón Óttar.
Samherji kallaði Hreiðar Eiríksson til sem vitni
Samherji kallaði Hreiðar Eiríksson, fyrrverandi yfirmann gjaldeyriseftirlits Seðlabankans, til sem vitni í málinu. Dómsalnum var lokað á meðan að vitnisburðurinn yfir Hreiðari stóð yfir því stað, þar sem þar voru til umræðu atriði sem falla undir bankaleynd.
Undarlegar aðstæður
Erfitt hefur verið fyrir blaðamenn hér í Héraðsdómi Reykjavíkur að heyra nákvæmlega orðaskil inni í dómsalnum, sem er númer 202. Einungis tíu manns mega vera inni í salnum vegna sóttvarnaráðstafana og reyndar er þessi dómsalur svo lítill að það væri hreinlega ekki pláss fyrir marga til viðbótar þar inni, en fyrir utan lögfræðiteymi Samherja og Seðlabankans og dómarann sjálfan er pláss fyrir þrjá áheyrendur í salnum.
Sökum þessara aðstæðna ákvað dómari í málinu að leyfa að opið yrði fram á gang – og þar hafa blaðamenn fjögurra miðla setið og fylgst með þessu máli, sem viðbúið var að myndi vekja áhuga fjölmiðla. Aðalmeðferðin færist í aðalsal dómstólsins, eftir hádegi, en hann var upptekinn í morgun.