Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að sú aukning sem orðið hefur í smitum á höfuðborgarsvæðinu síðustu daga sé ekki óvænt en þó ákveðin vonbrigði. Á meðan veiran er í samfélaginu megi eiga von á sveiflum í fjölda smita, sérstaklega á meðan faraldurinn er útbreiddur erlendis. Á fundi almannavarna í dag minnti hann á að veiran væri óútreiknanleg og því væri mikilvægt að bregðast hratt við og „slá á þennan faraldur sem er í uppsiglingu“. Sagði hann viðbúið að herða þurfi aðgerðir ef ástand faraldursins versnar og sömuleiðis að slaka á aðgerðum þegar betur gengur.
„Nú er appelsínugul viðvörun á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra en á síðasta fundi var kynnt til sögunnar litakerfi, sambærilegt því og Veðurstofan notar til að vara við veðri.
32 hafa greinst með veiruna síðustu tvo sólarhringa. Ungt fólk er þar í meirihluta.
Smit sem greinst hafa síðustu daga tengjast vínveitingastöðum, háskólum og nokkrum vinnustöðum og verður hertum aðgerðum beint sérstaklega að þeim, að sögn Þórólfs sem er með minnisblað til heilbrigðisráðherra í undirbúningi.
Ekki eru óyggjandi merki um að smit sem greinst hafa meðal nemenda og starfsfólks Háskóla Reykjavíkur og Háskóla Íslands hafi átt sér stað innan veggja þeirra stofnana.
Aukning í sýkingum kalli á staðbundnar og markvissar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu þar sem smitin hafa verið að greinast. Sagði hann ljóst að fólk sem sæki vínveitingastaði sé líklegt til að smitast og smita aðra. Minnti hann á að erlendis væri víða verið að beita harðari aðgerðum en hér á vínveitingastöðum „og við þurfum að skoða það betur sérstaklega í ljósi þess að vínveitinagstaðir virðast eiga stóran þátt í þeirri bylgju sem við erum í núna,“ sagði Þórólfur en ítrekaði að þessu væri ekki beint sérstaklega að stöðunum sem slíkum heldur fólkinu sem þá sækir.
Víðir sagði að ekki væri grunur um brot á sóttvörnum á þeim vínveitingastöðum sem tengjast smitum sem talin eru rakin til síðustu helgar.Þá sagði Þórólfur brýnt að skerpa vel á sóttvarnaraðgerðum á vinnustöðum og í skólum og munu tillögur þar um einnig verða í minnisblaði Þórólfs. Einnig þurfi að skerpa á vernd viðkvæmra hópa, s.s. á sambýlum og öldrunarheimilum.
Nýr stofn af veirunni er nú kominn til sögunnar. Hann greindist fyrst í ferðamönnum sem komu hingað til lands í ágúst og áttu að vera í sóttkví og svo einangrun. Í skoðun er hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis þar, sagði Þórólfur. Að minnsta kosti sjö innanlandssmit eru af þeim stofni.
Að sögn Þórólfs hefur það því miður verið að gerast undanfarið að fólk með sjúkdómseinkenni hafi farið til vinnu. Hann ítrekaði því enn og aftur mikilvægi þess að vera heima, hafa samband við heilsugæslu og biðja um sýnatöku, ef einkenni sem benda til COVID-19 láta á sér bera. Einstaklingsbundnar aðgerðir vega að mati Þórólfs mun þyngra en boð og bönn stjórnvalda.
„Við erum að gefa út sterkar viðvaranir,” sagði Víðir í lok fundarins. „Við erum ekkert að grínast með þetta. Við höfum séð það svartara, við getum unnið þetta saman, og við munum örugglega gera það.”