Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sækist eftir því að verða nýr varaformaður Samfylkingarinnar. Kosið verður í embættið á næsta landsfundi flokksins, sem fer fram í nóvember. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu.
Þar er haft eftir Helgu Völu, sem er núverandi formaður velferðarnefndar Alþingis, að hún finni fyrir síauknum áhuga á Samfylkingunni og að fólk á öllum aldri sé að ganga til liðs við flokkinn. „Ég er þess fullviss að með því að koma samstíga og kjörkuð fram með skýra framtíðarsýn muni kjósendur fela okkur í Samfylkingunni lyklana að stjórnarheimilinu.“
Talið er víst að Heiða Björg Hilmisdóttir, núverandi varaformaður Samfylkingarinnar og borgarfulltrúi hennar, ætli sér að óbreyttu að sækjast eftir endurkjöri í embættið. Því stefnir í að kosið verði á milli Helgu Völu og hennar.
Logi Einarsson ætlar sér að leiða Samfylkinguna áfram líkt og hann hefur gert frá því síðla árs 2016 og enginn hefur enn sem komið er tilkynnt um mótframboð gegn honum.
Vilja ríkisstjórn án Sjálfstæðisflokks
Logi hefur ítrekað talað fyrir því að Samfylkingin myndi kjarna næstu ríkisstjórnar ásamt Pírötum og Viðreisn eftir kosningarnar 2021.
Á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem fór fram í mars 2019 sagði hann að Ísland þyrfti ekki jafnvægi Sjálfstæðisflokksins sem byggði á því að örfáir sitja öðru megin á vegasaltinu, með þorra gæðanna en allur almennings héldi jafnvægi hinum megin.
Á öðrum flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar sem haldinn var í október í fyrra fjallaði hann meðal annars um, í ræðu sinni þar, hversu stór tíðindi ný staða Sjálfstæðisflokksins vegna minnkandi fylgis væri og að aðrir flokkar þurfi að bregðast við þessum nýja veruleika sem blasti við í íslenskum stjórnmálum. Hann sagði þetta vera sögulegt tækifæri fyrir Samfylkinguna til að fylkja saman umbótaöflunum í landinu og sýna að það sé til betri valkostur fyrir íslenskan almenning en núverandi ríkisstjórn. „Næsta stóra verkefni okkar er þetta: Við verðum, og segjum það bara skýrt, við verðum að fella þessa ríkisstjórn í kosningunum 2021, til að mynda betri, djarfari og víðsýnni stjórn fyrir fólkið í landinu og komandi kynslóðir - við verðum að rísa undir þeirri ábyrgð.
Í janúar 2020 sagði Logi, í umræðum um stöðuna í stjórnmálum í byrjun árs á Alþingi, að það væri kominn tími til að hætta að láta Sjálfstæðisflokkinn endalaust velja sér nýja dansfélaga eftir kosningar og stjórna eftir eigin geðþótta. „Nú er kominn tími samstilltrar, djarfrar og víðsýnnar stjórnar, án Sjálfstæðisflokksins - fyrir allt fólkið í landinu og komandi kynslóðir. Stjórn sem leggur alla áherslu á ríkara félagslegt réttlæti og hefur á sama tíma meiri sköpunarkraft, framsýni og hugrekki.“
Mælast yfir kjörfylgi
Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun MMR bætti Samfylkingin við sig tæplega tveimur prósentustigum í fylgi milli mánaða og mældist með 14,9 prósent fylgi. Viðreisn bætti líka við sig og mældist með tíu prósent stuðning. Píratar döluðu hins vegar lítillega og voru með 14,3 prósent.
Allir þrír flokkarnir, sem mynda meirihluta saman í næst stærsta stjórnvaldi landsins Reykjavíkurborg ásamt Vinstri grænum, eru að mælast með stuðning yfir kjörfylgi. Samanlagt fengu þeir 28 prósent atkvæða í kosningunum 2017 en mælast nú með 39,2 prósent stuðning saman. Samtals hefur fylgi Samfylkingar, Viðreisnar og Pírata aukist um 40 prósent frá því að síðast var kosið til þings á Íslandi. Þeir eru einu flokkarnir sem eiga fulltrúa á Alþingi sem hafa bætt fylgi sitt á kjörtímabilinu, miðað við niðurstöðu MMR.