Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri og meðlimur í starfshópi fjármálaráðuneytisins um efnahagsleg áhrif valkosta í sóttvarnarmálum, mun skrifa reglulega í vikuritinu Vísbendingu fram að áramótum. Már er höfundur greinar sem birtist í tölublaði vikunnar, en í henni segir hann að ákvörðunin um að herða sóttvarnaraðgerðir á landamærunum hafi verið rétt.
Í nýútgefinni skýrslu starfshópsins sem Már leiðir er efnahagslegur kostnaður tvöfaldrar skimunar á landamærunum metinn á 13 til 20 milljarða íslenskra króna. Hópurinn tekur þó fram að forsendur þessara útreikninga séu ekki öruggar og bendir á að aðrir þættir en sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda gætu haft áhrif á efnahagsumsvif á meðan á faraldrinum stendur.
Áhættustjórnun betri en hámörkun hagkvæmni
Í grein Más, sem birtist í Vísbendingu í dag, er farið yfir efnahagsleg áhrif sóttvarna hérlendis og þær forsendur sem stjórnvöld þurfa að hafa til hliðsjónar þegar slíkar ákvarðanir eru teknar. Samkvæmt Má er erfitt að hámarka þjóðhagslegan ábata þegar óvissa er um áhættuna sem fylgja ákvörðununum.
Einnig bætir Már við að þótt hertu sóttvarnaraðgerðirnar myndu skila hreinum ávinningi fyrir þjóðina í formi minni smithættu gæti hún falið í sér mikinn kostnað fyrir hluta hennar: „Þá kemur til álita það sjónarmið að þeim sem bera tjón vegna aðgerða sem skila til lengdar hreinum ávinningi fyrir heildina verði gert auðveldara að bera það,“ skrifaði Már í greininni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu með því að smella hér