Mál Kehdr-fjölskyldunnar frá Egyptalandi hefur verið á margra vörum undanfarna daga og vakið upp sterk viðbrögð en vísa átti henni úr landi síðasta miðvikudag. Foreldrarnir og börnin fjögur voru aftur á móti ekki á þeim dvalarstað sem lögreglan taldi þau vera á og enn er ekki vitað hvar þau eru niðurkomin.
Kjarninn spjallaði við Sabine Leskopf, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar í Reykjavík, en hún hefur látið sig mál innflytjenda og flóttamanna varða.
Tillaga um að leggja Útlendingastofnun niður
Sabine segist vera hissa á umræðunni um flóttafólk hér á landi en hún hefur mikið fylgst með hvernig málin hafa þróast í heimalandinu, Þýskalandi.
„Mér finnst umræðan hér alltaf fara í sama farið, bæði varðandi þetta mál og almennt. Hún fer hring eftir hring,“ segir hún.
Þá finnst henni mikilvægt að umræðan snúist ekki alltaf um eitthvað eitt sérstakt mál sem kemst í fjölmiðla heldur þurfi að breyta kerfinu í heild sinni. Það þurfi alvöru samtal um það. „Það liggur fyrir hvernig hægt væri að breyta kerfinu og búið er að skoða málið frá mörgum flötum, gera skýrslur og fleira.“ Nefnir hún sérstaklega skýrslu sem unnin var af Alþjóðamálastofnun Háskóla Íslands fyrir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið árið 2016.
Kynntar voru í skýrslunni tillögur til úrbóta en þær gerðu ráð fyrir því að t.d. Útlendingastofnun yrði lögð niður í núverandi mynd. Lagt var til að tekið yrði upp nýtt samstarfsskipulag þar sem gengið væri út frá aðkomu nokkurra ráðuneyta, stofnana ríkis og sveitarfélaga, og þjónustu félagasamtaka. Þar yrði dómsmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið leiðandi stofnanir í skipulögðu samstarfi.
Með þessu samstarfi lykilráðuneyta yrði mynduð ein stofnun sem miðlar upplýsingum, afgreiðir umsóknir og annast skipulag og samhæfingu á allri þjónustu við útlendinga, innflytjendur, umsækjendur um alþjóðlega vernd og flóttafólk á einum stað, þ.e. að hér yrði útfærð hugmyndin um „one-stop-shop“.
Sabine tekur undir þessar tillögur og segir að lausnin liggi í þverfaglegri vinnu milli stofnana, félagasamtaka, ráðuneyta, ríkis og sveitarfélaga.
Hvað með þá sem hafa ekki aðgengi að fjölmiðlum?
Sabine segir að hún hafi forðast það að tjá sig um einstaklingsmál sem koma upp í fjölmiðlum. „Mér finnst þetta svo sárt. Hvað með þá sem ekki hafa aðgengi að fjölmiðlum? Hugur minn er auðvitað hjá þessum börnum en það þarf miklar kerfisbreytingar,“ segir hún.
Hún telur að Íslendingar geti tekið á móti mun fleiri flóttamönnum. „Það er ekkert sem ætti að stoppa okkur.“
Nú standa yfir samningaviðræður milli ríkis og nokkurra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um að samræmda móttöku flóttafólks, sem sagt fólki sem hefur fengið vernd. „Það er mjög jákvætt skref og mun það breyta ótrúlega miklu fyrir þetta fólk og fyrir sveitarfélögin. Það er mjög stórt mál.“ Hún segir að í þessu samkomulagi felist að sveitarfélögin fái meira stuðning til að taka á móti flóttafólki og þjónusta þennan hóp.
Hún segir enn fremur að mikil þörf sé á kerfi hér á landi sem hugsi „meira út fyrir boxið“. Hægt sé að finna ýmsar lausnir við vandamálum sem koma upp og ef viljinn er til staðar sé hægt að breyta hlutunum.
Samstarf milli stofnana sé mikilvægt, eins og hún nefndi áður, en það sem þarf svo miklu meira í málum innflytjenda almennt sé pólitískur vilji. „Það hafa auðvitað verið stigin skref eins og til dæmis þingsályktunartillagan um ráðgjafastofu á höfuðborgarsvæðinu. Hún er ekki komin í framkvæmd en ég vona að það gerist fljótt. Það er auðvitað skref í rétta átt – og það verkefni byggir til dæmis á samstarfi og á þessari „one-stop-shop“-hugmynd.“
„Þetta fólk á heima hér“
Mikið hefur verið rætt um málefni flóttafólks en einnig innflytjenda almennt í Þýskalandi en stjórnvöld þar í landi hafa tekið á móti stórum hópi flóttafólks á síðustu árum. „Það hefur mikið breyst í Þýskalandi en einu sinni var alltaf sú hugsun að innflytjendur kæmu til að vinna í smá tíma en færi síðan aftur til síns heima. Við erum ennþá með þessa hugsun hér á Íslandi og þetta þarf að breytast. Forseti Þýskalands sagði til dæmis fyrir nokkrum árum að íslam tilheyrði Þýskalandi en það var mjög róttækt á sínum tíma. Að segja: „Þetta fólk á heima hér.“ Við erum hér á Íslandi ennþá föst í þessari hugsun; að erlent fólk komi hér til þess að vinna og fari síðan heim til sín aftur. En þessi hugsunarháttur er hættur að virka.“
Hún telur það ekki vænlegt til árangurs að mynda gjá á milli erlends fólks sem kemur hingað til lands og þeirra sem fyrir búa. Mikilvægt sé að aðlögunin sé á báða bóga. Hún segist gjarnan nota samlíkingu við hjónaband. „Ef einungis einn aðili þarf að breyta til og reynir bara að vera eins og hinn, þá bæði gengur það ekki upp til langs tíma og væri þar að auki frekar leiðinlegt.“
Sabine leggur til að við hættum að hugsa um rétt eða rangt í menningu þeirra sem hér búa, heldur leggjum áherslu á að allir fái að njóta sín til fulls og að fjölbreytileiki sé einfaldlega undirstaða skapandi samfélags.
Íslenskt samfélag vel til þess fallið að taka á mót börnum
Enn fremur finnur Sabine fyrir þeirri hugsun í Þýskalandi að „við berum öll ábyrgð á alþjóðavettvangi. Það er skylda okkar að taka á móti fólki.“ Það sem gengið hefur sérstaklega vel þar í landi, að sögn Sabine, er að koma fólki sem hefur fengið alþjóðlega vernd í nám og störf. „Það hefur tekist mjög vel og mjög stórt hlutfall flóttamanna var komið í starf eftir eitt til tvö ár. Við höfum allar forsendur hér á Íslandi til að gera það saman,“ segir hún en sérstök löggjöf var samþykkt þar 2016 sem tryggði viðtækt samstarf við fyrirtækin í landinu og varð til þess að margir brúarsmiðir voru ráðnir til að tryggja þátttöku flóttafólks á atvinnumarkaðnum og í samfélaginu.
Þá bendir Sabine á að íslenskt samfélag sé einstaklega vel til þess fallið að taka á móti börnum og unglingum.
„Við erum til dæmis með mikið átak í borginni að krakkar af erlendum uppruna – og þá sérstaklega flóttabörn – taka sem fyrst þátt í íþrótta- og tómstundastarfi. Íslenskt samfélag er svo sterkt á þessu sviði, þ.e. varðandi þátttöku barna í tómstundastarfi og það eru svo mikil tækifæri þarna. Það er ekkert betra en að ná þessum börnum inn í tómstundastarf, því við vitum hvað það hefur gert fyrir íslensk börn, til dæmis miðað við hvernig þetta var fyrir 30 árum.“
Skylda yfirvalda að meta það hvað sé börnum fyrir bestu
Þegar talið berst að egypsku fjölskyldunni segir Sabine að börnin séu auðvitað aðalmálið. Hún bendir á að UNICEF hafi ítrekað vakið máls á því að Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna sé lögfestur hér á landi. „Það er skylda yfirvalda að meta það hvað sé barni fyrir bestu í öllum ákvörðunum. Þannig að mál foreldra þeirra ætti ekki að vera það eina sem skiptir máli heldur ættu hagsmunir barnanna að hafa forgang. Það er sú grundvallarhugsun sem maður finnur ekki í þessu máli og fleirum.“
Hún segir að nú þurfi Íslendingar að einbeita sér að því að vera á bandi barnanna – og telur hún að mál þeirra þurfi sérafgreiðslu í kerfinu. „Þrátt fyrir að búið sé að neita foreldrunum hæli hér á landi þá gætum við að taka mál barnanna sérstaklega upp. Þau verða að hafa málsvara í kerfinu sem fer með þeirra mál fyrir dómstóla – en ekki í samhengi við mál foreldra þeirra. Að börnin eigi rétt á því að þeirra mál sé tekið fyrir sérstaklega,“ segir hún.