324 eru með virkt smit af kórónuveirunni hér á landi og í einangrun. Í gær greindust 57 ný innanlandssmit. Fjórtán daga nýgengi innanlandssmita á hverja 100 þúsund íbúa er nú komið upp í 83,2.
Tæplega helmingur þeirra sem greindust með COVID-19 í gær voru þegar í sóttkví. Í sóttkví eru 2.410 manns og í svokallaðri skimunarsóttkví er 1.951.
Tveir liggja enn á sjúkrahúsi með COVID-19, samkvæmt upplýsingum sem finna má á COVID.is.
Í gær voru tekin 5.165 sýni, þar af 640 á landamærunum.
Langflestir þeirra sem eru með COVID-19 og í einangrun eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu eða 291 einstaklingur. Þar eru líka langflestir í sóttkví eða 2.077. Þegar litið er til aldurs þeirra sem eru með virkt smit eru flestir í aldurshópnum 18-29 ára eða 103. Tæplega fimmtíu manns sem eru sextíu ára og eldri eru með sjúkdóminn.
Sóttvarnalæknir sagði í gær að flest smitin sem greinst hefðu síðustu daga mætti rekja til nokkurra vínveitingastaða í miðborg Reykjavíkur. Af þeim sökum eru slíkir staðir nú lokaðir tímabundið.
Veiruafbrigðið sem nú er tekið að dreifa úr sér má að hans sögn rekja til franskra ferðamanna sem komu hingað til lands fyrir miðjan ágúst. Á upplýsingafundi gærdagsins kom fram að erfiðlega hafi gengið að fá þá til að hlíta sóttvarnatilmælum á meðan þeir dvöldu hér.