Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur hafið könnun á hlutafjárútboði Icelandair Group og ákvarðanatöku lífeyrissjóða landsmanna varðandi það. Kallað hefur verið eftir gögnum frá sjóðunum, segir Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Þetta kom fram í máli hans á fundi fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans í morgun. „Að svo komnu máli er ekki hægt að segja neitt meira um þessa könnun, en hún er farin af stað,“ sagði Ásgeir á fundinum og bað sérstaklega blaðamenn og aðra sem staddir voru á fundi nefndarinnar að spyrja ekki út í einstaka sjóði, því slíkum spurningum gæti hann ekki svarað.
Ásgeir lýsti því að hans skoðun væri sú að „skoða þurfi allt ferlið upp á nýtt“ varðandi fyrirkomulag við ákvarðanatöku lífeyrissjóða um einstaka fjárfestingar. Í dag sitji í stjórnum lífeyrissjóða hagsmunaaðilar og taki ákvarðanir um fjárfestingar, sem að hans mati „ættu að vera teknar annars staðar, heldur en af þessum aðilum.“
Hann sagði að þegar kæmi að einstökum fjárfestingarkostum væri ákveðin hætta á að „aðrir hagsmunir en hagsmunir sjóðfélaga“ væru ráðandi og að lífeyrissjóðakerfið hefði verið byggt upp í sátt á milli aðila vinnumarkaðarins og þannig byggt á „ákveðnu heiðursmannasamkomulagi“, sem Ásgeir sagði að velta mætti fyrir sér hvort að héldi enn.
Bréf um sjálfstæði stjórnarmanna ítrekað
Hann sagði að áhyggjur af þessu tagi væru ekki nýjar af nálinni. Í fyrra hefði Fjármálaeftirlitið, þá sem sjálfstæð stofnun, sent út dreifibréf til lífeyrissjóða landsins þar sem sjóðirnir voru beðnir um að taka samþykktir sínar til skoðunar með tilliti til þess að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna.
„Þetta bréf hefur verið ítrekað núna, að sjóðirnir endurskoði samþykktir sínar til þess að tryggja sjálfstæði stjórnarmanna,“ sagði seðlabankastjóri.
Hann sagði, í svari við spurningu fréttamanns Stöðvar 2, að könnun Fjármáleftirlitsins sem snýr að útboðinu næði „til beggja aðila“, þ.e. verkalýðshreyfingar og atvinnurekenda, sem skipa stjórnarmenn í lífeyrissjóði landsmanna.