Eimskip segir að félagið hafi ekki komið nálægt þeirri ákvörðun að selja tvö skip sem höfðu verið í eigu þess, Goðafoss og Laxafoss, í endurvinnslu í Indlandi. Eimskip segir enn fremur að félagið hafi ekki komið að ákvörðun um það hvernig skipin voru endurunnin.
Í tilkynningu til Kaupahallar Íslands segir: „Eimskip hefur aflað upplýsinga frá Umhverfisstofnun sem hefur nú upplýst félagið að stofnunin hafi í vikunni kært félagið til embættis héraðssaksóknara sem lögaðila vegna meintra brota á lögum um meðhöndlun úrgangs. Eimskip hafði engar upplýsingar um þá kæru fyrr en eftir samtal við Umhverfisstofnun fyrr í dag og stofnunin aflaði engra gagna frá Eimskip vegna málsins. Eimskip hafnar þessum ásökunum enda fylgdi félagið í einu og öllu lögum og reglum í þessu söluferli.“
Í fréttaskýringaþættinum Kveik á RÚV í gærkvöldi var fjallað um endurvinnslu skipanna tveggja í skipaniðurrifsstöð í Indlandi sem uppfyllir ekki evrópskar reglur um endurvinnslu skipa.
Laxfoss og Goðafoss voru flutt í skipakirkjugarðinn í Alang á Indlandi í maí síðastliðnum. Í þætti Kveiks kom fram að ein af ástæðum fyrir því að þetta þætti eftirsóknarvert væri sú að í Asíu sé greitt fjórum sinnum meira fyrir skip á leið í niðurrif en í Evrópu. Að minnsta kosti 137 starfsmenn í Alang hafa látist við störf síðastliðinn áratug, samkvæmt því sem kom fram í Kveik.
Evrópusambandið (ESB) lögfesti Basel-sáttmálann, sem gerður var 1998, fyrir 14 árum síðan og bannaði þar með útflutning hættulega og mengandi úrgangs frá Evrópu. Frá 2018 hefur ESB svo lagt bann við því að skip yfir 500 brúttótonnum séu rifin annars staðar en í vottuðum endurvinnslustöðvum. Bæði Laxfoss og Goðafoss voru yfir þeirri stærð.
Sú löggjöf tók gildi á Íslandi fyrir ári síðan og gildir því um starfsemi Eimskips. Brot á henni geta varðar fjársektum eða nokkurra ára fangelsi.