Í gær greindust 38 ný tilfelli af COVID-19 hér á landi. Af þeim sem greindust í gær voru 20 í sóttkví eða 53 prósent. Nú eru 435 í einangrun vegna sjúkdómsins samanborið við 400 í gær en í sóttkví eru 1.780. Tveir einstaklingar liggja á sjúkrahúsi vegna sjúkdómsins.
Í landamæraskimun voru tekin tæplega 700 sýni og bíða tveir einstaklingar mótefnamælingar.
Frá upphafi faraldursins hafa 2.601 greinst með kórónuveiruna á Íslandi. Tíu hafa dáið hérlendis vegna COVID-19. Tölulegar upplýsingar um COVID-19 á Íslandi má skoða á covid.is.
Sætaskylda á vínveitingastöðum
Heilbrigðisráðherra féllst á tillögu sóttvarnalæknis þess efnis að börum og skemmtistöðum verði leyft að opna eftir þessa helgi. Vínveitingastöðum verður skylt að hafa sæti fyrir alla gesti sína og tryggja að gestirnir séu að jafnaði í sætum sínum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var á vef Stjórnarráðsins í gær.
Þar segir einnig að í minnisblaði sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra megi finna tilmæli um að rekstraraðilar skemmtistaða, vínveitingastaða, kráa og spilasala skuli tryggja góð loftgæði og stilla hávaða í hóf. „Er þá vísað til þess að hávær tónlist ýti undir að fólk tali hátt sem auki hættu á dropasmiti,“ segir á vef Stjórnarráðsins.