Alls greindust tuttugu einstaklingar með COVID-19 hér á landi í gær. Af þeim sem greindust voru tólf í sóttkví og því voru átta ekki í sóttkví. Innlögnum vegna sjúkdómsins hefur fjölgað en nú eru fjórir einstaklingar á sjúkrahúsi vegna COVID-19. Einn sjúklingur er á gjörgæslu.
Alls voru tæplega 1.700 sýni tekin í gær, að landamæraskimun meðtalinni. Þar af voru 648 sýni tekin úr fólki sem var með einkenni. Fimmtán einkennasýni reyndust jákvæð, svo hlutfall smitaðra í þeim hópi var um 2,3 prósent.
Fjórtán daga nýgengi smita á hverja 100.000 íbúa á Íslandi heldur áfram að hækka og er nú komið upp í 118,1. Fjögur sýni reyndust jákvæð á landamærum, en beðið er eftir niðurstöðum úr mótefnamælingum í öllum tilfellum. Alls voru rúmlega 700 sýni tekin í landamæraskimunum.
Alls eru 455 einstaklingar nú í einangrun með COVID-19 smit og 1.895 manns í sóttkví eftir að hafa verið útsett fyrir smiti, samkvæmt því sem fram kemur á vefnum covid.is.
Til viðbótar eru rúmlega 1.600 manns í sóttkví eftir að hafa komið hingað til lands undanfarna daga.