Á næstu dögum er líklegt að daglegur fjöldi nýgreindra smita verði á bilinu 20-40 en þó gætu orðið hátt í 70 ný smit á dag. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri spá vísindafólks frá Háskóla Íslands, embættis landlæknis og Landspítala um hvernig þróun faraldurs COVID-19 gæti orðið.
Spáin bendir til þess að nýgreindum smitum fari hægt fækkandi. Eftir þrjár vikur er líklegt að daglegur fjöldi nýgreindra smita verði á bilinu 10 til 30 á dag, en gætu orðið hátt í 60 nýgreind smit.
Vísindamennirnir miða við að þriðja bylgja faraldursins hafi hafist 11. september en voru þá samkomur takmarkaðar við 200 manns og eru enn. Í henni hafa því 506 smit greinst. Líklegur uppsafnaður fjöldi smita í þessari bylgju verður á bilinu 800-1.100 að mati vísindamannanna nætu þrjár vikurnar en smitin gætu þó orðið allt að 1.650. Þetta þýðir að enn gætu 294-1.144 átt eftir að sýkjast á komandi vikum.
Smitstuðull utan sóttkvíar í kringum 1
Í spánni er fjallað um svokallaðan smitstuðul sem segir til um hvað einstaklingur sem sýkist muni að jafnaði smita marga aðra. Ef smitstuðullinn er fjórir mun hver og einn að jafnaði sýkja fjóra aðra, sem sýkja fjóra aðra og svo koll af kolli sem birtist í hinum margumtalaða veldisvísisvexti. Ef heildarsmitstuðullinn er hins vegar nægilega lágur (vel undir einum) mun hver og einn að jafnaði smita færri en einn annan og faraldurinn því deyja út.
Í líkani vísindamannanna er gert ráð fyrir að landamærasmit hafi smitstuðulinn núll, smit sem greinist í sóttkví hafi fastan smitstuðul í gegnum allan faraldurinn og að smitstuðullinn fyrir smit utan sóttkvíar sé breytilegur frá degi til dags. Breytilegi smitstuðullinn metur smithraðann í samfélaginu á hverjum tímapunkti og getur því gefið mynd af áhrifum inngripa og samfélagslegri hegðun.
„Okkar útreikningar benda til þess að núverandi smitstuðull utan sóttkvíar sé um einn (95% líkindabil: 0,3-2,5). Þó óvissan sé talsverð virðist smitstuðullinn fara lækkandi. Þessa lækkun má líklega rekja til öflugrar smitrakningar og aukinnar vitundarvakningar um persónubundnar sóttvarnir í samfélaginu,“ segir í samantekt vísindamannanna.
Meðal smitstuðull alls tímabilsins fyrir einstaklinga í sóttkví er metinn 0,6 (95% líkindabil: 0,3-0,9), sem bendir til þess að sóttkví sé mjög öflug sóttvarnaaðgerð, segir ennfremur í samantektinni.