Eimskip hefur sent tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem félagið biðst afsökunar á því að tvö skip sem áður voru í eigu Eimskips, Goðafoss og Laxfoss, hafi endað í endurvinnslu í Indlandi. Þar er eru kröfur um aðbúnað starfsmanna og umhverfisáhrif niðurrifsins eru mun lakari en í Evrópu.
Í tilkynningu Eimskip segir að félaginu þyki „málið mjög leitt og lítur það alvarlegum augum enda leggur félagið, stjórnendur þess og starfsfólk mikla áherslu á samfélagslega ábyrgð í störfum sínum og hefur lengi hugað að umhverfismálum í sinni starfsemi. Þó félagið telji að farið hafi verið eftir lögum og reglum í söluferlinu er ljóst að þar sem skipin voru komin til ára sinna hefði mátt gera ríkari kröfur gagnvart kaupandanum. Það má gera með því að setja ákvæði í samning um söluna þess efnis að ef til þess kæmi að skipin færu í endurvinnslu þá yrði það gert í endurvinnslustöð sem samræmist Evrópu stöðlum. Eimskip biðst afsökunar á að svo hafi ekki verið gert.“
Þar er einnig haft eftir Vilhelm Má Þorsteinssyni, forstjóra Eimskips, að einhugur sé á meðal stjórnar og stjórnenda félagsins „að draga lærdóm af málinu og aðlaga núverandi samfélags- og umhverfisstefnu til að tryggja að svona atvik, sem samræmist ekki þeim gildum og áherslum sem Eimskip starfar eftir, komi ekki fyrir aftur.“
Unnið sé að því að hálfu félagsins að afla allra gagna og upplýsinga um málið og mun félagið í kjölfarið yfirfara verkferla og marka sér skýrari stefnu varðandi það hvernig eigin skipaflota er stýrt og viðhaldið með tilliti til aldurs og sölu.
Seld til sérhæfðs milliliðs
Fjallað var um niðurrif skipana í skipakirkjugarðinum í Alang á Indlandi í fréttaskýringaþættinum Kveik á fimmtudag. Þar kom fram að skipin tvö hefðu verið seld til fyrirtækis sem heitir GMS, og sérhæfir sig í að vera milliliður sem kaupir skip til að setja þau í niðurrif í Asíu þar sem kröfur um aðbúnað starfsmanna og umhverfisáhrif niðurrifsins eru mun lakari en í Evrópu.
Þriðja tilkynningin til Kauphallar
Afsökunarbeiðnin er þriðja tilkynningin sem Eimskip hefur sent frá sér til Kauphallar vegna málsins. Fyrst sendi félagið slíka áður en að Kveiksþátturinn var sýndur, en eftir að fréttamenn hans höfðu óskað eftir viðtali við stjórnendur Eimskips. Í þeirri tilkynningu sagðist Eimskip ekki hafa tekið ákvörðun um að senda skipin tvö til Indlands í endurvinnslu, heldur hafi það verið ákvörðun GMS, sem keypti skipin af Eimskip.
Í næstu tilkynningu, sem send var daginn eftir að þáttur Kveiks fór í loftið, var þessi afstaða ítrekuð. Þar sagði enn fremur: Eimskip hefur aflað upplýsinga frá Umhverfisstofnun sem hefur nú upplýst félagið að stofnunin hafi í vikunni kært félagið til embættis héraðssaksóknara sem lögaðila vegna meintra brota á lögum um meðhöndlun úrgangs. Eimskip hafði engar upplýsingar um þá kæru fyrr en eftir samtal við Umhverfisstofnun fyrr í dag og stofnunin aflaði engra gagna frá Eimskip vegna málsins. Eimskip hafnar þessum ásökunum enda fylgdi félagið í einu og öllu lögum og reglum í þessu söluferli.“