Alls greindist 61 með COVID-19 í gær innanlands, samkvæmt nýjum upplýsingum frá covid.is, en þar af voru 39 utan sóttkvíar. Fjöldi nýrra smita utan sóttkvíar hefur ekki verið jafnmikill síðan í fyrstu bylgju faraldursins.
Alls greindust 55 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, en fimm greindust í sóttkvíar- og handahófsskimun og einn í skimun á vegum Íslenskrar erfðagreiningar.
Undanfarna viku hafa á bilinu 32 til 39 smit verið greind daglega. Á fimmtudaginn greindust svo 37 tilfelli af veirunni, en af þeim voru 26 ekki í sóttkví. Þetta var mesti fjöldi daglegra smita utan sóttkvíar frá 22. september, en hlutfall smita utan sóttkvíar hafði ekki verið jafnlágt síðan í upphafi þriðju bylgjunnar fyrir tveimur vikum síðan.
Líklegt að faraldurinn vari í fimm vikur til viðbótar
Í samtali við Kjarnann sagði Thor Aspelund líftölfræðingur og höfundur COVID-spálíkans Háskóla Íslands líklegt að þessi bylgja faraldursins vari í fimm vikur til viðbótar, en ný bylgja gæti einnig hafist aftur í desember. Fleiri liggja nú á sjúkrahúsi en á sama tímapunkti í fyrstu bylgju faraldursins.
Álagið á Landspítalann hefur aukist töluvert í þessari viku, en samkvæmt pistli frá Páli Matthíassyni forstjóra spítalans sem birtur var í gær eru miklar tilfærslur á starfseminni þar þessa daganna. 9 af 19 skurðstofum spítalans verða lokaðar, en lífsbjargandi og brýnum aðgerðum verður ennþá sinnt.