Fleiri en 250 umsagnir bárust um drög að frumvarpi til laga um fæðingar- og foreldraorlof, sem voru til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda frá 23. september og þar til 7. október. Á lokametrunum hrönnuðust inn umsagnir frá fjölmörgum stofnunum og samtökum í samfélaginu.
Langflestar umsagnir bárust voru þó frá einstaklingum og mikill meirihluti þeirra innihélt gagnrýni á efni frumvarpsdraganna. Aðallega beindist hún að þeirri ætlan stjórnvalda að skipta fæðingarorlofinu jafnt á milli foreldra, þannig að hvort foreldri taki sex mánuði og einungis einn mánuður verði framseljanlegur þeirra á milli.
Orðið „forræðishyggja“ kom oft fyrir í umsögnunum, eða alls 21 sinni í þeim 253 umsögnum sem bárust. Orðasambandið „réttur barnsins“ kom sömuleiðis 26 sinnum fram og orðið „tekjuskerðing“ 35 sinnum, samkvæmt lauslegri athugun blaðamanns.
Markmiðið sem á að nást fram með því að jafna fæðingarorlofstöku foreldra er einna helst að jafna stöðu kynjanna inni á heimilinu og þar með á vinnumarkaði, en rík tilhneiging hefur verið til þess hér á landi að mæður nýti þann tíma fæðingarorlofsins sem er sameiginlegur milli foreldra.
Nefnt er í greinargerð með frumvarpinu að óframseljanlegur fæðingarorlofsréttur feðra gæti styrkt stöðu þeirra til töku fæðingarorlofs gagnvart vinnuveitendum og að breytingunni sé ætlað að styðja við að frumvarpið nái markmiðum sínum, sem eru meðal annars þau að hvetja báða foreldra til að gegna skyldum sínum gagnvart börnum sínum og fjölskyldulífi.
Landlæknisembættið telur 4-4-4 skiptingu vænlegri
Landlæknisembættið skilaði inn umsögn við frumvarpsdrögin og sagði þar að fæðingarorlof ætti að skilgreina sem rétt barns umönnunar á fyrstu mánuðum lífsins, fremur en einungis sem rétt fullorðinna á vinnumarkaði.
Embættið segir það einnig vekja athygli að svo virðist sem enginn fulltrúanna í starfshópnum sem lagði fram tillögur að frumvarpinu hafi sérþekkingu á geðheilsu og þroska ungra barna, heldur virðist fulltrúar „einna helst tengjast atvinnumálum“ og segir embættið nauðsynlegt að slíkur fulltrúi verði með í ráðum við frekari endurskoðun laganna.
Varðandi skiptingu orlofsmánaðanna segir embættið að mikilvægt sé að lögin „endurspegli skilning á ólíkum aðstæðum fjölskyldna og bjóði upp á meiri sveigjanleika varðandi tilhögun en gert er ráð fyrir í núverandi frumvarpi“ og segir að með því að hafa einungis einn mánuð framseljanlegan sé „harla naumt skammtað“ ef markmiðið sé að koma til móts við aðstæður fjölskyldna.
Embættið vill áfram sjá sveigjanleika í ráðstöfun orlofsins halda sér þrátt fyrir lengingu fæðingarorlofsins og leggur til 4-4-4 skiptingu, þannig að fjórum mánuðum geti foreldrar ráðstafað eins og hentar best þörfum barnsins og aðstæðum fjölskyldunnar.
Viðskiptaráð Íslands telur einnig að meiri sveigjanleiki væri til bóta, allavega ef ekki stendur til að hækka hámarksgreiðslur til foreldra og segir sterk rök með 4-4-4 skiptingu í því ljósi. Í umsögn ráðsins segir að fjárhagslegur fórnarkostnaður feðra af fæðingarorlofi sé almennt séð umtalsvert meiri en mæðra og að þann fjárhagslega fórnarkostnað þurfi að minnka.
„Að takmarka nýtingu orlofsins á þennan hátt, án þess að hækka tekjuhámarkið gæti mögulega gengið gegn markmiðum frumvarpsins og aukið muninn á orlofstöku og launamun kynjanna,“ segir í umsögninni.
SA styðja frumvarpið en ljósmæður telja brjóstagjöf settar skorður
Samtök atvinnulífsins segjast í umsögn sinni styðja þær breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu og segja að jöfn skipting orlofs sé „talin best til þess fallin að ná markmiði laganna sem er að tryggja barni samvistir við báða foreldra og gera foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.“
„Gögn frá Fæðingarorlofssjóði sýna að feður taka í langflestum tilfellum aðeins sinn sjálfstæða rétt til fæðingarorlofs og mæður taki að stærstum hluta sameiginlega réttinn. Slík ójöfn skipting mun ekki leiða okkur áfram í áttina að auknu jafnrétti. Rannsóknir sýna einnig að feður sem taka við umönnun barns síns í fæðingarorlofi taka almennt jafnari ábyrgð á þeim verkefnum sem falla innan heimilis. Það gerir báðum foreldrum kleift að samræma betur fjölskyldu- og atvinnulíf að loknu fæðingarorlofi,“ segir í umsögn SA.
Ljósmæðrafélag Íslands segir í umsögn sinni að ráðlegt væri að hafa mánuðina 6 sem eyrnamerktir eru hvoru foreldri að nokkru eða fullu leyti framseljanlega á milli foreldra, vegna mikilvægis brjóstagjafar.
Í umsögn félagsins segir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) og Embætti landlæknis mæli með brjóstagjöf fyrsta árið og til allt að tveggja ára aldurs. Fæðingarorlofið ætti því að taka mið af þessum leiðbeiningum.
Auk þess leggur félagið einnig til sérstakt meðgönguorlof mæðra frá 36 viku meðgöngu, svo ekki þurfi að koma til veikindaleyfis undir lok meðgöngu.
Barnaheill telja breytingarnar ekki allar börnum til heilla
Samtökin Barnaheill segja að „líta ætti á fæðingarorlof sem sjálfstæðan rétt barna til að vera í nálægð við foreldra sína í jafnlangan tíma óháð áunnum rétti, hjúskaparstöðu og öðrum aðstæðum foreldrana,“ en að bæði í núverandi lögum og í frumvarpinu sé fæðingar- og foreldraorlof háð áunnum rétti foreldra.
„Þar sem staða foreldra á vinnumarkaði er misjöfn er hætt við því að þeir eigi mismikinn rétt til orlofstöku sem hefur mögulega áhrif á töku á fæðingar- og foreldraorlofi. Með því getur skapast mismunun á milli barna þar sem þau njóta ekki öll jafnlangrar samvistar við foreldra sína og önnur börn,“ segja Barnaheill og vísa í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem á að tryggja réttindi allra barna án mismununar að það sem barni er fyrir bestu skuli ávallt hafa forgang þegar ráðstafanir eru gerðar varðandi börn.
Einnig segja samtökin að aðstæður barna og fjölskyldna þeirra séu mismunandi og því telja þau brýnt að skapa meiri sveigjanleika á meðal foreldra hvernig þeir skipta fæðingarorlofi eða fæðingarstyrk á milli sín. „Viðleitnin að jafna stöðu kynja til að koma á móts við tengslamyndun barna við báða foreldra sína og jafna möguleika allra kynja á vinnumarkaði er góðra gjalda verð en það er mat Barnaheilla að ekki er hugað að hagsmunum barna nægilega mikið með þessari skiptingu,“ segir í umsögninni.
Sveitarfélögin segja frumvarpið fela í sér aukinn sveigjanleika
Samband íslenskra sveitarfélaga segir að í umræðu um frumvarpið hafi mikið verið rætt um frelsi fjölskyldna til að ákveða hvað henti þeim best varðandi skiptingu orlofs milli foreldra. Sambandið lítur þó þannig að sveigjanleikinn sé í reynd að aukast, enda sé hámarkstími sem foreldri geti tekið í orlof í dag 6 mánuðir, en verði 7 mánuðir samkvæmt frumvarpinu.
„Í frumvarpinu er því boðið upp á meiri sveigjanleika en áður þekkist fyrir annað foreldri til að vera lengur heima en á sama tíma tryggt að réttindi barns til samvista við báða foreldra sé tryggt sem og réttur beggja foreldra til samvista við barn,“ segir meðal annars í umsögn Sambandsins.
Fræðimenn við HÍ telja að breytingarnar muni vekja heimsathygli
Nokkrir fræðimenn við Háskóla Íslands sem hafa verið í fararbroddi í rannsóknum á fæðingarorlofinu og málefnum barnafjölskyldna leggja einnig orð í belg. Þau telja að samþykkt frumvarpsins yrði „mikið heillaskref fyrir börn og foreldra á Íslandi, jafnrétti kynja og samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja“ og styðja það margvíslegum rökum.
Þau segja meðal annars í umsögn sinni að feður á Íslandi hafi að meðaltali notað einmitt þann dagafjölda sem þeir eiga sjálfstæðan rétt til, sem sýni hvernig sjálfstæður réttur til fæðingarorlofs verði að viðmiði um hvað skuli teljast hæfilegt.
„Sjálfstæður réttur beggja foreldra til fæðingarorlofs er þar af leiðandi forsenda þess að báðir foreldrar taki orlof. Þeim mun jafnari sem rétturinn er þeim mun jafnari verður notkun orlofsins. Það frumvarp sem hér liggur fyrir mun líklega þýða að mæður muni að jafnaði taka í heild um 7 mánaða orlof (auk sumarleyfis) og vera heima með barni alfarið eða að hluta fyrstu 7-8 mánuðina eftir fæðingu og feður taka svo við og taka sína 5 mánuði, að frátöldum þeim vikum sem foreldrar ákveða að verja saman strax eftir fæðingu. Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að frelsi foreldra til að haga orlofstöku eins og þeim best hentar er óvíða meira en á Íslandi, t.d. er mjög óvenjulegt að foreldrum sé frjálst að vera saman í fæðingarorlofi eins lengi og þeir kjósa eins og hér er,“ segir í umsögn fræðafólksins, sem telur að skrefin sem tekin eru með frumvarpinu muni „vekja alþjóðaathygli og verða öðrum þjóðum hvatning til dáða.“