„Eini sanni sannleikurinn um hvernig á að gera þetta er ekki til,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna í dag. Á fundinum var beint að honum spurningu sem oft hefur heyrst áður: Ætti að fara þá leið að ná hjarðónæmi í samfélaginu frekar en að hafa miklar takmarkanir á ferðum og samkomum fólks?
„Það eru allar þjóðir langt frá hjarðónæmi,“ svaraði Þórólfur. Oft væri bent á Svía í þessu sambandi en þar væru þó aðeins um 10 prósent íbúa á þeim svæðum sem verst hafa orðið úti búnir að sýkjast. „Þannig að þeir eru langt frá hjarðónæmi.“
Að sögn Þórólfs „þarf ekki öflugt ímyndunarafl“ til að sjá hvað myndi gerast ef veirunni yrði leyft að ganga óheftri yfir. Um 1 prósent íbúa á Íslandi hefðu smitast og þó væri álagið á heilbrigðiskerfið þegar mikið.
Hvað ef við fengjum fjórum til fimm sinnum stærri faraldur? Spurði Þórólfur. Hvað ef tilfellin væru 300-500 dag? Eða jafnvel um 2.000 eins og spár vísindafólks í Háskóla Íslands bentu til að þau gætu orðið ef ekkert yrði að gert. „Við myndum gjörsamlega yfirkeyra heilbrigðiskerfið og myndum fá hræðilega útkomu,“ sagði hann. „Að læknar skuli halda þessu fram [að fara hjarðónæmisleið] – mér bara finnst það ótrúlegt.“
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sem einnig var á fundi almannavarna í dag, sagði engan góðan kost í stöðunni – eini góði kosturinn væri að hér væri engin veira. „Það verður að velja skásta kostinn og sá langskásti er að reyna að takmarka sem mest sýkingar.“