Hagnaður Útgerðarfélags Reykjavíkur í fyrra var 31,9 milljónir evra, um 4,4 milljarðar króna, miðað við meðalgengi evru á síðasta ári. Það er umtalsverð viðbót við 1,6 milljarða króna hagnaðinn sem féll til árið 2018.
Mestu munaði um sölu Útgerðarfélags Reykjavíkur á eignarhluta sínum í sölufélögum í Asíu, Seafood Services ehf. og Gjörva ehf. til Brim hf. á árinu 2019. Hagnaður af þeim viðskiptum nam 20 milljónum evra, eða tæplega 2,8 milljörðum króna. Hagnaðurinn hefði verið 3,1 milljörðum krónum meiri ef félagið hefði ekki þurft að bókfæra þá upphæð sem kostnað vegna niðurstöðu dómstóla í máli sem Glitnir HoldCo vann gegn því fyrr á árinu 2020. Sú upphæð á að óbreyttu að enda í ríkissjóði.
Fiskveiðiheimildir sem félaginu hefur verið úthlutað beint eru metnar á 81,6 milljónir evra, um 11,3 milljarða króna. Þær eru færðar sem eignir og lækka um 20 milljónir evra, 2,8 milljarða króna, milli ára vegna sölu á heimildum. Eignarhlutir í hlutdeildarfélögum aukast hins vegar vegnar milli ára og eru metnir á 275,5 milljónir evra, rúmlega 38 milljarða króna.
Eignir Útgerðarfélagsins eru metnar á 463,6 milljónir evra, rúma 64 milljarða króna, og eigið fé var 236,7 milljónir evra, tæplega 33 milljarðar króna, um síðustu áramót. Skuldir við lánastofnanir jukust umtalsvert á síðasta ári, um rúmlega 50 milljónir evra, og voru 162,1 milljónir evra, 22,5 milljarða króna, í lok síðasta árs.
Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Útgerðarfélags Reykjavíkur.
Bókfærðu milljarða greiðslu í ríkissjóð
Athygli vekur að Útgerðarfélagið færir í reikninginn greiðslu upp á 22,6 milljónir evra, um 3,1 milljarð króna, vegna „áhrifa af dómi“. Þar er um að ræða dómsmál sem Glitnir HoldCo, félag sem stofnað var á grunni þrotabús Glitnis, höfðaði og Útgerðarfélagið tapaði í héraði í mars á þessu ári vegna afleiðusamninga sem það gerði fyrir bankahrun og neitaði að gera upp í kjölfar þess. Upphæðin á að renna í ríkissjóð vegna stöðugleikasamnings sem gerður var við þrotabú Glitnis, samkvæmt því sem kom fram í vitnisburði Hauks C. Benediktssonar, starfsmanns Seðlabanka Íslands sem stýrði Eignasafni Seðlabanka Íslands (ESÍ) um árabil, og Steinars Þórs Guðgeirssonar, lögmanns Seðlabanka Íslands fyrir héraðsdómi í málinu.
Í ársreikningum segir að dómnum hafi verið áfrýjað til Landsréttar. „Í reikningsskilum félagsins er færð upp skuldbinding vegna þessa. Með færslu þeirrar skuldbindingar felst ekki viðurkenning á skuldinni af hálfu félagsins og getur breyst við áfrýjun.“
Runólfur Viðar Guðmundundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur, segir hins vegar að dómi héraðsdóms hafi ekki verið áfrýjað og að Útgerðarfélagið hafi þegar greitt Glitni HoldCo að fullu.
Málið hefur tekið á sig margskonar myndir. Meðal annars kærði Útgerðarfélagið framferði Ólafs Eiríkssonar, lögmanns Glitnis HoldCo, í dómsmálinu til Úrskurðarnefndar lögmanna sem úrskurðaði í málinu þann í lok janúar í fyrra. Þar var háttsemi hans, sem í fólst að veita lykilvitni rangar upplýsingar um staðreyndir og láta hjá líða að tilkynna Útgerðarfélaginu að til stæði að hafa samband við vitnið, sögð vera aðfinnsluverð.
Þá kærði Útgerðarfélag Reykjavíkur til lögreglu, þann 17. apríl 2018, það sem í ársreikningi fyrirtækisins var kallað þá „háttsemi að rangfæra sönnunargögn“ í dómsmálinu. Sú háttsemi á að hafa falið í sér „að „klippa“ eða fjarlægja með öðrum hætti, 7 cm neðan af öllum samningum svo að þeir myndu líta út á annan veg en þeir gerðu.
Ein af stóru blokkunum í sjávarútvegi
Í lok mars síðastliðins héldu tíu stærstu útgerðir landsins á tæplega 53 prósent af úthlutuðum kvóta, samkvæmt samantekt Fiskistofu. Innan þessa hóps eru aðilar sem eru tengdir þótt þeir séu það ekki samkvæmt lögum um fiskveiðar. Brim, Samherji og Kaupfélag Skagfirðinga eru fyrirferðamestu útgerðirnar. Þær halda á, einar og sér og ásamt félögum sem eigendur þeirra eiga í, á tæplega 43 prósent af öllum úthlutuðum kvóta.
Litlar breytingar hafa verið á umfangi kvóta þeirra stóru útgerðarhópa sem tengjast innbyrðis án þess þó að verða tengdir aðilar samkvæmt lögum. Þannig er Brim sú útgerð sem heldur á mestum kvóta, eða 10,13 prósent. Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á 43,97 prósent hlut í Brim beint og í gegnum dótturfélag sitt RE-13 ehf, hefur fengið úthlutað 3,51 prósent af öllum aflaheimildum.
Til viðbótar heldur útgerðarfélagið Ögurvík, að fullu í eigu Brims, á 1,55 prósent af úthlutuðum kvóta. Þessi þrjú félög eru því með 15,19 prósent af úthlutuðum kvóta.