Sýn vill ekki upplýsa hvaða erlendu fjárfestar eru í samningaviðræðum um kaup og endurleigu á ónýttum farsímainnviðum Sýnar. Þó verði frekari upplýsingar um málið kynntar í næsta ársfjórðungsuppgjöri félagsins 4. nóvember.
Þetta staðfestir fyrirtækið í svari við fyrirspurn Kjarnans. Þar segir að fréttatilkynningin um samningaviðræðurnar sem barst fjölmiðlum síðasta föstudag innihaldi allar upplýsingar sem Sýn geti veitt á þessum tímapunkti, en að meiri upplýsinga sé að vænta í uppgjörinu.
Kjarninn fjallaði um fréttatilkynninguna síðasta föstudag, en samkvæmt henni hefur félagið náð samkomulagi við erlenda fjárfesta um helstu skilmála í sölu og 20 ára endurleigu á óvirkum farsímainnviðum félagsins. Söluhagnaður Sýnar gæti numið yfir sex milljörðum króna, gangi viðskiptin eftir.
Í síðasta árshelmingsuppgjöri félagsins sagði Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar að það væri til athugunar að bjóða hluta farsímakerfisins til sölu, sem hann teldi að myndi skila miklu fjármagni til hluthafa. Auk þess sagði Heiðar að margfaldarar í viðskiptum á farsímainnviðum fjarskiptafyrirtækja væru margfalt hærri en gerist á almennum hlutabréfamarkaði.
Frá því að Heiðar tilkynnti fyrst um áformin í lok ágúst síðastliðnum hefur hlutabréfaverð félagsins hækkað um meira en helming, eins og sjá má á myndinni hér að ofan. Í kjölfar fréttatilkynningar félagsins á föstudaginn í síðustu viku hækkaði hlutabréfaverð þess svo um sjö prósent á einum degi.
Sýn er ekki eina fjarskiptafélagið þar sem hugmyndir hafa verið viðraðar um aðskilnað innviða- og þjónustuhluta. Kjarninn hefur áður greint frá því að fjárfestar hafi gert óformlegar fyrirspurnir um kaup á Mílu, innnviðahluta félagsins þeirra. Mörg dæmi eru líka um aðskilnað innviða- og þjónustuhluta símfyrirtækja víða um Evrópu á undanförnum árum, meðal annars frá Tékklandi, Danmörku og Ítalíu.