Börn fædd 2011 og síðar þurfa ekki að bera grímu, samkvæmt breytingu á reglugerð um takmörkun á samkomum sem Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur staðfest. Breytingin er sögð gerð í samráði við sóttvarnalækni.
Í fyrri reglugerð um samkomutakmarkanir, sem kynnt var á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar á föstudaginn, var talað um að einungis börn fædd 2015 og síðar væru undanþegin grímunotkun þegar hún ætti við.
Í gær leit svo dagsins ljós sérstök reglugerð frá heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi. Þar kom fram að nemendur á fyrsta skólastigi grunnskóla, í 1.-4. bekk, væru undanþegnir tveggja metra nálægðartakmörkunum og þyrftu auk þess ekki að nota andlitsgrímur.
Nú hefur reglugerðinni þar sem almennt er kveðið á um grímuskyldu í samfélaginu verið breytt, þannig að börn á þessum aldri og yngri eru undanþegin grímuskyldu, ekki bara í skólum heldur utan þeirra líka.
Spilakössum lokað
Í reglugerðarbreytingunum, sem staðfestar hafa verið af ráðherra og taka gildi strax í dag, er einnig kveðið sérstaklega á um að loka skuli spilakössum, en í reglugerðinni var áður einungis kveðið á um að spilasölum ætti að loka. Þetta er gert í samræmi við tillögur í minnisblaði sóttvarnalæknis.