Miðstjórn Alþýðusambandsins (ASÍ) styður kröfu Öryrkjabandalags Íslands (ÖBÍ) um að endurhæfingar- og örorkulífeyrir verði hækkaður svo að hann fylgi kjarasamningsbundnum taxtahækkunum.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá sambandinu. Þar segir að ekki sé hægt að samþykkja að stórum hópi fólks sem býr við skerta starfsgetu sé haldið í fátækt. „Slíkt er ekki sæmandi á landi sem kennir sig við velferð og jöfnuð. Einnig er mikilvægt að samstundis verði dregið úr skerðingum í örorkulífeyriskerfinu svo að fólk með skerta starfsgetu eigi möguleika á því að vera á vinnumarkaði og bæta kjör sín með launaðri vinnu. Allt fólk á rétt á að lifa frjálst undan efnislegum skorti. Fólk með örorku, fjölskyldur þeirra og börn hafa þurft að bíða allt of lengi eftir réttlæti. Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld axli pólitíska ábyrgð og mæti kröfum ÖBÍ af sanngirni og skilningi.“
ÖBÍ hefur undanfarnar vikur staðið fyrir herferð, meðal annars með sjónvarpsauglýsingum.
Þar hefur verið bent á að bilið á milli örorkulífeyris og lágmarkslauna hafi lækkað stöðugt frá árinu 2007. „Í valdatíð núverandi ríkisstjórnar hefur ekkert verið gert til að bregðast við þessari kjaragliðnun, heldur þvert á móti hefur bilið breikkað enn meira, þrátt fyrir að ríkisstjórnin segist vinna í anda heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna, hvar efst á blaði er að útrýma fátækt. Nú þegar Bjarni hefur lagt fram sitt síðasta fjárlagafrumvarp á kjörtímabilinu er enga breytingu að sjá,“ skrifaði ÖBI í stöðuuppfærslu sem birt var á Facebook 11. október. Með fylgdi auglýsing sem síðan hefur verið afar sýnileg víða, meðal annars í sjónvarpi.
Þar er verið að baka köku og er það vísun í frægt kosningabaráttumyndband sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, gerði fyrir kosningarnar 2016.
Ráðherra sagði myndband ÖBÍ misheppnað
Bjarni lagði fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi í síðustu viku um framlög til almannatrygginga. Samkvæmt því minnisblaði rennur sífellt aukinn hluti verðmætasköpunar hagkerfisins til tilfærslukerfa og fjárframlaga ríkissjóðs. Sérstaklega var fjallað um framlög til almannatrygginga, að frátöldum atvinnuleysisbótum, og sagt að þau hafi nær tvöfaldast frá árinu 2013 miðað við verðlag hvers árs.
Í stöðuuppfærslu sem Bjarni birtir á Facebook í kjölfarið sagði hann að það sé mikið áhyggjuefni að á sama tímabili hafi þeim sem eru á örorkubótum eða endurhæfingarlífeyri fjölgað um 4.300 manns. „Það eru u.þ.b. jafn margir og búa í Vestmannaeyjum. Okkur er að mistakast að ná utan um þennan vanda og verðum að bregðast við.“
Bjarni sagði í stöðuuppfærslu sinni að hann heyrði ákall ÖBÍ um að hækka bætur enn frekar. „Myndband þeirra er hins vegar misheppnað, þótt kakan sé falleg eftirmynd af þeirri sem ég gerði. Það dugar ekki til, því það er rangt að öryrkjar fái sífellt minni sneið. Kakan hefur stækkað og almannatryggingar hafa fengið stærri sneið af stækkandi köku. Um það vitna staðreyndir. Og við tókum 4 milljarða til hliðar til að styrkja þessi kerfi enn frekar á þessu kjörtímabili. Enn er óráðstafað um fjórðungi þeirrar fjárhæðar en um að að ræða varanlega 4 milljarða hækkun á þessum lið almannatrygginga.“
ÖBÍ brást við og sagði framsetningu ráðherrans villandi. Tilgangur minnisblaðsins væri að „ýja að því að það séu öryrkjarnir sem frekastir eru á fleti.“
Segir fullyrðingar Bjarna rangar
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ, sendi degi síðar bréf til Bjarna þar sem sagði að fullyrðingar hans væru rangar.
Í bréfinu vitnar hún í skýrslu Kolbeins Stefánssonar félagsfræðings, sem hann vann fyrir Öryrkjabandalagið. Í skýrslunni segir að þó það sé óumdeilanlegt að örorkulífeyrisþegum hafi fjölgað á milli 2008 og 2019, virðist hafa dregið nokkuð úr fjölguninni eftir 2017 og raunar hafi heildarfjöldi örorkulífeyrisþega svo gott sem staðið í stað á milli 2017 og 2019.
„Þannig má segja að breytingin á milli 2008 og 2019 gefi ekki rétta mynd af stöðu mála í dag og breytingin frá aldamótum enn síður. Örorkulífeyrisþegum hefur fjölgað umtalsvert frá aldamótum, nokkuð frá 2008 en lítið sem ekkert frá 2017 miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir í dag,“ sagði í skýrslunni.
Þuríður benti á að þannig hafi örorkulífeyrisþegar verið sjö prósent af mannfjölda 18 til 66 ára árið 2008, og 7,8 prósent árið 2019, eftir að hafa verið hæst 8,2 prósent árið 2017. „Hér ber að hafa í huga að árið 2016 var gerð gangskör hjá Tryggingastofnun Ríkisins í að afgreiða fjölda umsókna sem safnast höfðu fyrir.“