Á fimmta tímanum staðfestu allir stærstu miðlarnir vestanhafs að Joe Biden hefði sigrað nýafstaðnar forsetakosningar í Bandaríkjunum. Joe Biden verður því 46. forseti Bandaríkjanna þegar hann tekur við embætti í janúar. Þetta þýðir að Kamala Harris verður fyrsta konan til að gegna embætti varaforseta Bandaríkjanna.
Kosningar fóru fram í Bandaríkjunum á þriðjudag og hafa margir beðið í ofvæni eftir úrslitum kosninganna. Decision Desk HQ reið á vaðið í gær og lýsti yfir sigri Bidens.
Nú hafa allir stærstu fréttamiðlarnir gert slíkt hið sama með því að lýsa yfir sigri Bidens í Pennsylvaníu og þar með í kosningunum. Ríkið færði Biden 20 kjörmenn sem kom honum upp í 273 kjörmenn alls en 270 kjörmenn þarf til að sigra kosningarnar.
Ekki eru öll kurl komin til grafar
Talning stendur enn yfir í mörgum ríkjum og ekki er búið að kalla öll ríki Bandaríkjanna. Úrslit í þeim ríkjum sem enn á eftir að kalla ættu þó ekki að breyta niðurstöðum kosninganna – Biden hefur komist yfir 270 kjörmanna múrinn.
Stóra spurningin er hversu auðveldlega valdaumskiptin munu ganga. Skömmu eftir að stóru miðlarnir fóru hverjir á eftir öðrum að staðfesta sigur Bidens hófst blaðamannafundur sem haldinn var af framboðsteymi Trumps. Þar tilkynnti Rudy Giuliani, lögmaður Trumps að til stæði að kæra úrslit kosninga í mörgum af þeim ríkjum sem skipta mestu máli í kosningunum, til dæmis í Pennsylvaníu.
Kamala fyrsti kvenkyns varaforsetinn
Með kjöri Bidens hefur verið brotið blað í stjórnmálasögu Bandaríkjanna því Kamala Harris verður þar með fyrsta konan til að gegna embætti varaforseta. Það hefur einungis tvisvar gerst áður að varaforsetaefni hjá öðrum af stóru flokkunum tveimur hafi verið kvenkyns. Árið 1984 var Geraldine Ferraro varaforsetaefni demókrata og árið 2008 var Sarah Palin varaforsetaefni Repúblikana.