Páll Matthíasson forstjóri Landspítala segir að hann búist við því spítalinn verði færður af neyðarstigi og niður á hættustig á allra næstu dögum.
Það þýðir að aftur verður hægt að framkvæma svokallaðar valkvæðar aðgerðir á spítalanum, en þurft hefur að fresta mörg hundruð aðgerðum frá því að spítalinn var settur á neyðarstig eftir að hópsmit kom upp á Landakoti.
Þetta kom fram í máli forstjórans á upplýsingafundi almannavarna í dag. Sextán einstaklingar greindust með COVID-19 í gær og þar af voru einungis tveir utan sóttkvíar.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum að þessum tölum þyrfti að taka með fyrirvara, þar sem færri sýni væru tekin um helgar en virka daga, en þó væri ljóst að innanlandssmitum héldi áfram að fækka hægt og bítandi og það bæri að þakka góðri þátttöku almennings í sóttvarnaraðgerðum.
Fimm einstaklingar létust vegna COVID-19 um helgina. Í öllum tilfellum var um að ræða eldra fólk, sem smitaðist í tengslum við hópsýkinguna á Landakoti. Fram kom í máli forstjóra Landspítala að sjötta andlátið hjá einstaklingi í þessum hópi sjúklinga væri yfirvofandi.
„Ég vil fyrir hönd alls starfsfólks Landspítala segja að hugur okkar er hjá aðstandendum þessa fólks, sem veiran hefur nú lagt af velli,“ sagði Páll.
Skýrsla um Landakotssmitið mögulega kynnt í lok vikunnar
Skýrsla Landspítala vegna hópsmitsins á Landakoti er tilbúin í drögum og verður núna rýnd varðandi aðferðafræði og síðan kynnt embætti landlæknis. Þegar embætti landlæknis verður búið að koma með sínar athugasemdir og spurningar verður skýrslan kynnt starfsfólki Landspítala og síðan almenningi.
Páll sagði að skýrslan ætti að vera tilbúin til opinberrar kynningar í fyrsta lagi fyrir lok vikunnar.
Mjög hægt verði farið í allar afléttingar
Þórólfur sóttvarnalæknir sagði á fundinum í dag að hann teldi að það þyrfti að fara „mjög hægt“ í að aflétta núverandi sóttvarnaraðgerðum, sem eru í gildi til 17. nóvember.
Spurður að því hvort lækkandi fjöldi nýsmita gæfi ekki tilefni til þess að skoða að létta á aðgerðum sem nú er í gildi fyrr en áætlað var sagði hann svo ekki vera, að sínu mati. Það væri vont að slaka á aðgerðum of snemma og þurfa svo að herða á aðgerðum aftur, ef illa færi.
„Ég held að það eigi allir að vera undir það búnir að við höfum tiltölulegar harðar takmarkanir áfram,“ sagði Þórólfur.