Um 20 prósent þeirra sem sýkjast af kórónuveirunni glíma við geðræn vandamál þremur mánuðum síðar. Kvíði, þunglyndi og svefnleysi eru helstu sjúkdómarnir sem fólkið glímir við.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í niðurstöðum rannsóknar vísindamanna við Oxford-háskóla sem birt var í læknavísindaritinu Lancet í vikunni.
Paul Harrison, prófessor í geðlækningum við Oxford-háskóla, segir að frá því að faraldurinn hófst hafi margir óttast að sjúkdómurinn gæti haft langvinn, geðræn áhrif í för með sér. Hann segir rannsóknina sýna að sá ótti var ekki ástæðulaus. Læknar og aðrir vísindamenn um heim allan þurfi að rannsaka hvað valdi því að fólk veikist andlega í kjölfar COVID-19 og að þróa verði nýjar meðferðir.
„Heilbrigðisstofnanir þurfa að vera tilbúnar að veita aðhlynningu, sérstaklega þar sem niðurstöður okkar eru líklega vanmat frekar en hitt,“ er haft eftir Harrison í frétt Reuters.
Rannsóknin var byggð á sjúkraskýrslum 69 milljón Bandaríkjamanna. Af þeim höfðu yfir 62 þúsund verið greindir með COVID-19. Vísindamennirnir telja að niðurstöðurnar megi yfirfæra á alla heimsbyggðina.
Helsta niðurstaðan er sú að á innan við þremur mánuðum eftir að hafa greinst með sjúkdóminn hafði einn af hverjum fimm sjúklingum verið greindur með kvíða, þunglyndi eða svefnleysi í fyrsta skipti á ævinni. Fólk í þessum hópi var tvöfalt líklegra til að veikjast andlega en aðrir á því tímabili sem faraldurinn hefur geisað.