Raforkukostnaður stórnotenda á raforku á Íslandi skerðir ekki samkeppnishæfni þeirra gagnvart Noregi, Kanada og Þýskalandi. Í tveimur fyrrnefndu löndunum stendur stóriðja einna best að vígi í alþjóðlegum samanburði og er álframleiðsla hvergi meiri á Vesturlöndum en þar.
Álver á Íslandi eru samkeppnishæf við Kanada og Noreg þegar kemur að raforkukostnaði en greiða minna en slík í Þýskalandi. Gagnaver greiða almennt þrisvar sinnum lægra verð fyrir raforku hérlendis en í Þýskalandi, svipað verð og í Noregi en heldur hærra en í Kanada þó sumir samningar hérlendis kunni að vera svipaðir og í Kanada. Raforkukostnaður annarra stórnotenda á Íslandi er ívið lægri en í Þýskalandi en ívið hærri en í Noregi og Kanada en fremur fá dæmi eru þó á bakvið þann samanburð.
Veittu aðgang að upplýsingum um raunverulegt orkuverð
Úttektin er einstök í ljósi þess að hún byggir á aðgangi að trúnaðarupplýsingum um raunverulegt orkuverð í einstökum orkusölusamningum, en stórkaupendur á raforku á Íslandi á borð við álver hafa ekki viljað gera þá samninga opinbera. Í tilkynningu frá ráðuneytinu vegna úttektarinnar segir að Fraunhofer hafi fengið „aðgang að trúnaðarupplýsingum um raforkusamninga orkuframleiðenda og stórnotenda á Íslandi. Langflestir aðilar sem leitað var til veittu aðgang að umbeðnum upplýsingum og allir stórnotendur utan einn veittu upplýsingar um raforkuverð sitt. Samið var um trúnað við veitingu upplýsinganna og samráð var haft við Samkeppniseftirlitið um verklagið.“
Samráð var haft við aðila samninganna við framsetningu niðurstaðna og í því samráði komu fram athugasemdir við fyrirhugaða framsetningu á orkukostnaði álvera og var tekið tillit til þeirra.
Þórdís Kolbrún segir mikilvægt að fá fram að raforkukostnaður stórnotenda á Íslandi sé almennt sambærilegur eða lægri en í samanburðarlöndunum. „Við vitum að stóriðja á Vesturlöndum hefur átt undir högg að sækja gagnvart öðrum heimshlutum, auk þess sem aðstæður á heimsmarkaði hafa verið erfiðar. Það dettur engum í hug að gera lítið úr þeim áskorunum. Auk þess eru orkusamningar ólíkir og misjafnlega hagfelldir kaupendum. En það er jákvætt að raforkukostnaður stórnotenda hér er almennt samkeppnishæfur, jafnvel þegar miðað er við þau lönd sem þykja bjóða upp á eitthvert hagfelldasta starfsumhverfi á Vesturlöndum.“
Hótuðu að loka álverinu í Straumsvík
Um 80 prósent af allri orku sem framleidd er á Íslandi fer til stórnotenda, aðallega þriggja álvera og einnar járnblendiverksmiðju sem eru í eigu Rio Tinto, Alcoa, Century Aluminum (stærsti eigandi þess er Glencore) og Elkem.
Ástæða þess að ráðherrann bað um úttektina var sú að í upphafi árs hótaði Rio Tinto að loka álveri sínu í Straumsvík og bar fyrir sig að raforkuverð á Íslandi væri ekki samkeppnishæft.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar sem selur álverinu raforku, brást við og benti á að það væri mikil einföldun hjá Rio Tinto að tengja stöðu mála í rekstri þess eingöngu við það raforkuverð sem það greiðir til Landsvirkjunar. Vitað hafi verið í nokkurn tíma að þróun á mörkuðum fyrir ál og rekstrarvandi álversins gerði stöðu Rio Tinto á Íslandi erfiða. „Þess vegna höfum við ákveðið að setjast niður með þeim og skoða þeirra stöðu. En ég tel það mikla einföldun að tengja þessa stöðu eingöngu við raforkuverðið. Það eru miklu stærri áhrifavaldar henni tengdir. Til dæmis álverð á heimsmarkaði, verðþróun á þeirri vöru sem álverið framleiðir, hátt súrálsverð og það að missa út þriðjung af starfseminni í fyrra.“
Gildandi raforkusamningur Landsvirkjunar og álversins í Straumsvík var gerður í júní 2010. Hann gildir til ársins 2036 og um er að ræða fyrsta samninginn sem Landsvirkjun gerði við álframleiðanda hérlendis þar sem að tenging við álverð var afnumin. Með því færðist markaðsáhættan af þróun á álmarkaði frá seljandanum yfir á kaupandann.
Norðurál vill aflétta trúnaði
Norðurál, sem er í eigu Century Aluminum og rekur álver á Grundartanga, segir í tilkynningu að það telji að skýrsla Fraunhofer um samkeppnishæfni íslenskrar stóriðju sé um margt góð og fagnar því að ráðherrann skuli hafa tekið það skref að láta óháðan aðila meta samkeppnishæfni stóriðju á Íslandi, með tilliti til raforkuverðs.
Hvað varði niðurstöðu Fraunhofer skýrslunnar þá telur Norðurál hana staðfesta það sem fyrirtækið hafi bent á, að meðalverð raforku hafi verið samkeppnishæft. „Skýrslan staðfestir einnig að það raforkuverð sem nú stendur til boða á Íslandi er ekki samkeppnishæft við það sem stendur til boða í Noregi og Kanada. Norðurál tekur heils hugar undir með skýrsluhöfundum um að þörf sé á meira gagnsæi á íslenskum orkumarkaði. Norðurál hefur því óskað eftir því við orkusala að trúnaði verði aflétt af langtíma orkusölusamningum milli fyrirtækjanna eins fljótt og auðið verður.“