Í nýrri útgáfu af frumvarpi Ásmundar Einars Daðasonar félags- og barnamálaráðherra til laga um fæðingar- og foreldraorlof er lagt til að barnshafandi foreldri verði veittur sérstakur styrkur vegna skerts aðgengis að fæðingarþjónustu, í þeim tilvikum þar sem foreldrið þarf að mati sérfræðilæknis að dvelja fjarri heimili sínu fyrir áætlaðan fæðingardag.
Þetta eru nýmæli í frumvarpinu, sem var samþykkt í ríkisstjórn í dag og verður lagt fram á Alþingi í framhaldinu. Mikil umræða var um frumvarpið í haust og bárust alls á þriðja hundrað umsagnir við frumvarpið í samráðsgátt stjórnvalda, þar sem það var sett fram til kynningar.
Ein þeirra var frá Byggðastofnun, sem lagði til að foreldrum sem búa í þeim landsbyggðum sem eru fjærst fæðingarþjónustu yrði bætt upp að þurfa að dvelja um lengri tíma utan heimilis með viðbótarfæðingarorlofi. Þetta virðist að einhverju leyti hafa verið tekið til greina, samkvæmt fréttatilkynningu frá félagsmálaráðuneytinu, en frumvarpið sjálft hefur ekki verið birt.
Jöfn skipting 12 mánaða orlofsins áfram meginreglan
Foreldrar hafa áfram heimild til þess að framselja einn mánuð af sínum sjálfstæða rétti til orlofstöku til hins foreldrisins, þannig að mögulegt er að annað foreldrið taki sjö mánaða orlof en hitt fimm.
Ef aðstæður eru hins vegar með þeim hætti við fæðingu barns að annað foreldrið er ekki til staðar eða getur ekki nýtt rétt sinn til fæðingarorlofs af nokkrum tilgreindum ástæðum, getur hitt foreldrið tekið allt að 12 mánuði í fæðingarorlof. Þetta á við í eftirtöldum tilfellum:
- Þegar ekki hefur reynst mögulegt að feðra barn samkvæmt barnalögum.
- Þegar foreldri er gert að sæta nálgunarbanni og/eða brottvísun af heimili samkvæmt lögum um nálgunarbann og/eða brottvísun.
- Þegar annað foreldrið hefur ekki rétt til töku fæðingarorlofs/fæðingarstyrks hérlendis né heldur sjálfstæðan rétt til töku orlofs í sínu heimaríki.
- Þegar umgengni annars foreldris við barnið er engin eða hún verulega takmörkuð, svo sem undir eftirliti einvörðungu, á grundvelli niðurstöðu lögmælts stjórnvalds eða dómstóla. Forsjárforeldri þarf að sækja um þessa tilfærslu réttinda til Vinnumálastofnunar sem tekur ákvörðun í málinu.
Stærsta breytingin í frumvarpinu er sú að foreldrar hafa nú alla jafna jafn langan sjálfstæðan rétt til töku fæðingarorlofs og stendur sú breyting óhögguð.
Fæðingarorlofið verður líka lengt upp í 12 mánuði og tekur sú breyting gildi um áramót, þegar að búið verður að samþykkja frumvarpið á þingi.
Í fréttatilkynningu ráðuneytisins segir að gert sé ráð fyrir að 19,1 milljarði króna verði varið í fæðingarorlof á næsta ári, sem er tæplega tvöföldun á þeim fjármunum sem fóru til málaflokksins árið 2017, á verðlagi hvors árs.
„Í ár eru tuttugu ár liðin frá gildistöku laga um fæðingar- og foreldraorlof, sem voru gríðarlega framsækin á þeim tíma en það var kominn tími til að endurskoða þau og færa til nútímans. Þetta frumvarp er stórt skref í þá átt og við viljum að Ísland sé góður staður til þess að eignast og ala upp börn, og með þessu frumvarpi erum við að auka enn á réttindi foreldra til samvista með börnunum sínum á fyrstu mánuðunum ævi þeirra,“ er haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni ráðherra í tilkynningu ráðuneytisins.