Lyfjaframleiðandinn Pfizer hefur gefið út frekari niðurstöður úr tilraunum sínum á COVID-19 bóluefninu sem þróað var í samstarfi við þýska fyrirtækið BioNTech og mun sækja um leyfi til þess að hefja dreifingu á því á allra næstu dögum.
Bóluefnið er nú sagt hafa 95 prósent virkni og engar alvarlegar aukaverkanir, en 2 prósent þátttakenda kvörtuðu undan smávægilegum hausverk og 3,7 prósent þeirra sögðust hafa fundið fyrir þreytu eftir að hafa fengið skammtinn. Alls tóku nærri 44 þúsund manns þátt í tilraun Pfizer og BioNTech.
Helmingur þeirra fékk lyfleysu og hinn helmingurinn bóluefnið, sem gefið er í tveimur skömmtum með þriggja vikna millibili. Alls hafa 170 manns í hópunum tveimur smitast af COVID-19 og þar af voru 162 í lyfleysuhópnum. Tíu veiktust alvarlega og þar af var einungis einn einstaklingur sem fékk bóluefnið. Virkni bóluefnisins er að sögn Pfizer og BioNTech jöfn á milli aldurshópa, kynja og kynþátta.
Pfizer ætlar sér nú að sækja um neyðarleyfi til Matvæla- og lyfjaeftirlitsstofnunar Bandaríkjanna (FDA) til þess að fá að hefja dreifingu á bóluefninu þar sem fyrst. Alls segjast Pfizer og BioNTech get dreift 50 milljón skömmtum af efninu fyrir árslok, sem dugir fyrir 25 milljónir manna.
Samkvæmt frétt New York Times myndi helmingurinn af þeim skömmtum fara til Bandaríkjanna. Á næsta ári segjast fyrirtækin hins vegar geta framleitt og dreift 1,3 milljörðum skammta.
Evrópusambandið undirritaði í síðustu viku samning við Pfizer um kaup á 200 milljón skömmtum af bóluefninu, með möguleika á kaupum á 100 milljón skömmtum til viðbótar. Íslandi er tryggður sami aðgangur að bóluefnum sem Evrópusambandið semur um og aðildarríkjum sambandsins.
Sama aðferðin hjá Pfizer og Moderna
Þetta eru enn ein góðu tíðindin af þróun bóluefna sem hafa borist að undanförnu, en á mánudag var sagt frá því að bóluefni frá Moderna hefði fengið svipaðar niðurstöður og Pfizer og BioNTech í tilraunum sínum hingað til, eða yfir 90 prósent virkni.
Þeirri rannsókn er þó ekki alveg lokið, enn er beðið eftir að fleiri þátttakendur hjá Moderna smitist af COVID-19 til þess að vissan um virkni bóluefnisins aukist. Pfizer og BioNTech hafa hins vegar skilað meiri gögnum og segjast tilbúin til þess að sækja um dreifingarleyfi og eru því að fikra sig feti framar í þessu mikla kapphlaupi.
Bæði fyrirtækin nýta sömu aðferð við gerð bóluefnisins, eða genaupplýsingar (mRNA) fyrir svokölluð gaddprótein sem er að finna á yfirborði kórónuveirunnar, SARS-CoV-2. Þegar bóluefninu er sprautað í einstaklinga byrja frumur líkamans að framleiða sín eigin gaddprótein og þjálfa sig í að takast á við veiruna.
Ónæmiskerfið lítur á gaddpróteinin sem framandi fyrirbæri og tekur til varna með því að framleiða mótefni og T-frumur, sem gera kórónuveirunni erfiðara um vik við að valda bólusettum skaða.
Að tvö fyrirtæki sem eru að beita þessari sömu aðferð, sem hefur aldrei áður verið beitt við þróun bóluefna fyrir manneskjur, nái bæði afbragðsgóðum árangri í umfangsmiklum tilraunum á samanburðarhópum, er talið afar jákvætt.
Augun beinast að dreifingunni
Varðandi bóluefni Pfizer og BioNTech munu nú augu margra beinast að því hvernig dreifingin mun ganga, en bóluefnið þarf að geyma við alveg gríðarlegan kulda, eða allt að -80°C, sem gæti hamlað dreifingunni eitthvað.
Bóluefni Moderna hins vegar má geyma við lægra hitastig, eða í allt að mánuð við 2-4 gráður, sem er um það bil sama hitastig og í ísskápnum hjá okkur flestum.